Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

89. fundur 09. febrúar 2021 kl. 13:00 - 14:50 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Kristinn Jóhann Lund varaformaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson aðalmaður
  • Nanna Steina Höskuldsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Þórir Örn Gunnarsson hafnarstjóri
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
  • Jónas Hreiðar Einarsson starfsmaður í stjórnsýslu
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá
Þórir Örn Gunnarsson hafnastjóri sat fundinn undir lið 1.
Gaukur Hjartarson skipulags- og byggingarfulltrúi sat fundinn undir liðum 1-8.

1.Greiðslusamkomulag - hliðrun á greiðslum

Málsnúmer 202007007Vakta málsnúmer

Eyrarhóll ehf. óskar eftir frestun á greiðslum samkvæmt núgildandi greiðslusamkomulagi. Fyrir ráðinu liggur tillaga að breyttu samkomulagi samkvæmt óskum hlutaðeigandi aðila.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi drög í samræmi við bókun ráðsins á 83. fundi.

2.Deiliskipulag fyrir Pálsgarð og Útgarð

Málsnúmer 202009067Vakta málsnúmer

Á fundi ráðsins 2. febrúar s.l. var fjallað um hugmyndir að deiliskipulagi við Pálsgarð og Útgarð og tekin afstaða til nokkurra þátta skipulagshugmynda. Ráðið frestaði frekari afgreiðslu málsins til þessa fundar. Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti uppfærðar skipulagshugmyndir þar sem búið er að færa inn ákvarðanir frá síðasta fundi.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulagsráðgjafa að færa inn í skipulagstillögu að á lóðinni að Útgarði 2 megi byggja þriggja hæða hús með hámarks þakhæð 11 m yfir gólfi 1. hæðar. Ráðið leggur til við sveitarstjórn að framlögð tillaga með fyrrgreindri breytingu verði kynnt til samræmis við ákvæði skipulagslaga.

Ráðið leggur til að Betraisland.is sé nýtt til að kynna deiliskipulagstillöguna og að skipulags- og byggingarfulltrúa sé falið að útfæra það.

3.Ósk um stækkun lóðar að Höfðavegi 8

Málsnúmer 202102030Vakta málsnúmer

Guðmundur Þráinn Kristjánsson óskar lóðarstækkunar Höfðavegs 8 skv. framlögðum hnitsettum lóðaruppdrætti. Lóðarblað er að mestu í samræmi við deiliskipulag svæðisins fyrir utan að lóðarmörk við Höfðaveg 10 hnikast nær Höfðavegi 10. Fyrir liggur skriflegt samþykki lóðarhafa Höfðavegar 10 fyrir þeirri breytingu. Lóðin að Höfðavegi 8 yrði eftir breytingu 437,5 m² og lóðin að Höfðavegi 10 546,1 m².
Skipulags- og framkvæmdaráð telur mikilvægt að skilja eftir lítilsháttar svæði fyrir snjómokstur og leggur til við sveitarstjórn að umsækjanda verði boðin lóð til samræmis við uppfærða tillögu að lóðarmörkum.

4.Umsókn um byggingarleyfi fyrir bílskúr að Holtagerði 7

Málsnúmer 202102008Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur samþykkt byggingaráform fyrir bílskúr við Holtagerði 7. Kynnt voru gögn málsins.
Skipulags- og framkvæmdaráð gerir ekki athugasemdir við þessa afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa.

5.Umsókn um breytta afmörkun lóðar umhverfis sumarhúsið Afaborg í landi Oddsstaða

Málsnúmer 202102025Vakta málsnúmer

Eigendur Oddsstaða óska eftir samþykki fyrir stækkun lóðar Oddsstaðir - Afaborg (landnúmer 205.694) skv. framlögðum hnitsettum uppdrætti. Ný lóð yrði 1,0 ha að flatarmáli.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að afmörkun lóðarinnar verði samþykkt.

6.Ósk um stofnun frístundahúsalóðar utan um húseignir Norðurþings á Þórseyri

Málsnúmer 202102014Vakta málsnúmer

Eignasjóður Norðurþings óskar samþykktar fyrir stofnun frístundahúsalóðar umhverfis hús að Þórseyri í Kelduhverfi með vísan í bókun skipulags- og framkvæmdaráðs frá fundi 87. Lóðin fái heitið Þórseyri. Erindi fylgir hnitsettur uppdráttur sem sýnir 13.152 m² lóð. Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti aðrar hugmyndir að afmörkun lóðarinnar.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að stofnun lóðarinnar verði samþykkt til samræmis við framlagðan uppdrátt og að hún fái heitið Þórseyri.

7.Söluheimild eigna: Þórseyri

Málsnúmer 202102062Vakta málsnúmer

Verkefnastjóri á framkvæmdasviði og umsjónarmaður fasteigna Norðurþings óskar eftir söluheimild vegna fasteigna og lóðaréttinda sem ganga undir nafninu Þórseyri.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að veitt verði söluheimild vegna fasteigna og lóðaréttinda sem ganga undir nafninu Þórseyri.

8.Verktakayfirlit framkvæmdasviðs 2020.

Málsnúmer 202012019Vakta málsnúmer

Tekin hafa verið saman gögn yfir verktakagreiðslur á rekstrarárinu 2020. Gögnin eru sundurliðuð m.t.t. þess hvort um er að ræða almenn verk eða útboðsverk, en einnig þær verktakagreiðslur sem farið hafa á milli í tengslum við rekstur félagslegra íbúða Norðurþings.
Bergur Elías leggur fram eftirfarandi tillögu.
Þess er óskað að Rammasamningur milli Norðurþings og Ríkiskaupa verði tekinn til yfirferðar og umræðu á næsta fundi ráðsins

Greinargerð
Undirritaður vill byrja á því að þakka yfirmanni framkvæmdasviðs fyrir greinargóða samantekt á hinum ýmsu framkvæmdum og þjónustukaupum sviðsins á liðnu ári. Gögnin ná yfir flesta starfseiningar sveitarfélagsins að Orkuveitu Húsavíkur undanskilinni.

Fram kemur að almenn verkkaup námu 333,2 m.kr (77% af heild) og útboðsverk námu 102,2 m.kr (23% af heild). Heildarupphæð er því 435,4 m.kr.

Samningur Norðurþings, fyritækja og stofnana þess við Ríkiskaup er sérstaklega sniðinn fyrir verkefni sem ekki eru útboðsskyld. Ef ég skil þetta rétt þá er samningurinn bindandi. Einnig er þar fjallað um gæðakerfi ÍST-30 sem er fyrst og fremst samskiptamál milli aðila samnings, gerður til að koma í veg fyrir ágreining. Bein kaup undir 500 tíma þjónustu eru heimiluð en yfir 500 tíma ber að fara í örútboð, viðmiðunarupphæð við þjónustukaup er 15,5 m.kr. Verkefni yfir 49 m.kr. eru útboðsskyld.

Bindandi samningur við ríkiskaup hefur án efa marga góða kosti og skyldur um leið fyrir seljanda og kaupanda verka sem og þjónustu. Að því sögðu er rétt að benda á að ekki er víst að hann henti í öllum tilfellum. Í ljósi þessa telur undirritaður mikilvægt að ráðið taki til umfjöllunnar rammasamning milli Norðurþings og Ríkiskaupa með tilliti til framkvæmda samningsins sem og breytingar á einstaka ákvæðum hans.

Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir tillöguna.

9.Gerð Víkurbrautar á Raufarhöfn að botnlangagötu.

Málsnúmer 202102031Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi frá Kristjönu R. Sveinsdóttur f.h. Klifaeigna ehf á Raufarhöfn þar sem kallað er eftir úrbótum, m.a. í tengslum við gatnalýsingu, gatnamerkingar, snjómokstur o.fl. Hluti þeirra úrbóta er í farvegi og hægt verður að bregðast við öðru án aðkomu ráðsins, en þó er óskað eftir afstöðu skipulags- og framkvæmdaráðs til þess að Víkurbraut á Raufarhöfn verði gerð að botngötu.
Skipulags- og framkvæmdaráð vísar erindinu til umsagnar hjá hverfisráði Raufarhafnar.

10.Beiðni til Norðurþings vegna snjómoksturs á vegi 85 um Kelduhverfi.

Málsnúmer 202102056Vakta málsnúmer

Atvinnu- og samfélagsfulltrúi Öxarfjarðarhéraðs sendi um daginn í samráði við hverfisráð svæðisins, skólabílstjóra og framkvæmdastjóra Fjallalambs og Fiskeldi Samherja erindi til Vegagerðarinnar þar sem óskað er eftir því að fyrirkomulag snjómoksturs á þjóðvegi 85 (Lón-Kópasker) verði aðlagað að þörfum samfélagsins hér. Miðað er við að vegurinn opni fyrst um 07:30 en starfsmenn stærstu fyrirtækja byrja kl. 07:00 og skólabílar eru fyrr á ferðinni.

Gildandi þjónustuflokkur er 3, og skv. svörum sem bárust er ekki svigrúm til þess að fara fyrr af stað nema vegurinn fari í annan flokk, þó er „auðveldlega“ hægt að breyta moksturstíma um miðjan dag með samráði verkstjóra, vaktstöðvar og óskum sveitarfélags, óska hér með eftir því að skipulags- og framkvæmdaráð komi því ferli af stað með það í huga að búið verði að moka þegar skólabílar og starfsmenn stærstu vinnustaða svæðisins eru á ferðinni.

Meginvandamálið í þessu er þó fyrst og fremst um morgnana, því verður ekki hægt að breyta nema vegurinn verði færður upp um þjónustuflokk, óska ég þá einnig eftir því að skipulags- og framkvæmdaráð þrýsti á Vegagerðina að endurskoða þjónustuflokkinn hér við fyrsta tækifæri.
Skipulag- og framkvæmdaráð tekur undir með hverfisráðum Öxarfjarðar og Kelduhverfis og vísar erindinu til sveitarstjórnar.

11.Saltvík ehf. óskar eftir nýjum samningi við sveitarfélagið Norðurþing um landleigu í Saltvík

Málsnúmer 202011111Vakta málsnúmer

Á 87. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs sem haldinn var þann 26. janúar sl, var eftirfarandi bókað:

Lagt er til að skipulags- og framkvæmdaráð samþykki samningsdrög sem lágu fyrir 86. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs þar sem allar níu landsspildur eru í einum samningi og ákvæði um að Saltvík hafi forleigurétt að landsspildu 84 þar sem engin annar er á biðlista. Ráðið felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að undirrita samninginn og leggja fyrir ráðið að nýju til kynningar.
Silja Jóhannesdóttir.
Samþykkt af Kristjáni Friðriki, Nönnu, Sigurgeiri og Silju.

Fyrir liggja drög að 20 ára samkomulagi við Saltvík ehf. vegna leigu beitarhólfa í landi Saltvíkur. Samningsdrögin eru undirrituð f.h. Norðurþings og lögð fram til kynningar til samræmis við bókun ráðsins frá 26. janúar sl.
Lagt fram til kynningar.

12.Fyrirspurn um leigu á landi til beitar fyrir Saltvík ehf.

Málsnúmer 202009046Vakta málsnúmer

Til kynningar fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggja drög að samkomulagi við Saltvík ehf. vegna leigu á beitarhólfum á Bakkahöfða.
Lagt fram til kynningar.

13.Drög að umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarp um innleiðingu hringrásarhagkerfis.

Málsnúmer 202102029Vakta málsnúmer

Vísað er til tilkynningar í samráðsgátt stjórnvalda frá 15. janúar sl. þar sem óskað er eftir umsögnum um ofangreind drög að breytingu á lögum vegna innleiðingar hringrásarhagkerfisins.
Með frumvarpinu er stefnt að innleiðingu tilskipana Evrópuþingsins og ráðsins er fjalla um úrgang og innleiðingu hringrásarhagkerfis. Tilskipanirnar hafa ekki verið teknar upp í EES-samninginn en í frumvarpinu kemur fram að rétt þyki að innleiða þær í ljósi þess hversu mikilvægt er að skapa sem fyrst skilyrði fyrir myndun svo kallaðs hringrásarhagkerfis í íslenskri löggjöf í því skyni að ýta undir endurnýtingu og endurvinnslu úrgangs og draga verulega úr myndun hans.

Samkvæmt frumvarpsdrögum eiga lagabreytingarnar að taki gildi strax 1. júlí nk. en ákvæði um ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á tilteknum plastvörum og veiðarfærum á plasti taka ekki gildi fyrr en 1. janúar 2023. Sveitarfélög hafi jafnframt frest til 1. júlí 2023 til að innleiða aðskilda sérsöfnun á pappír og pappa, plasti og málmum og innleiða breytingar á gjaldheimtu.
Lagt fram til kynningar.

14.Rauði krossinn sækir um afnot af húsnæðinu að Miðgarði 4 (Túni), skrifstofuhluta.

Málsnúmer 202102057Vakta málsnúmer

Fyrir liggur ósk frá RKÞ um afnot af skrifstofuhluta húsnæðis Norðurþings að Miðgarði 4 (Tún). Lágmarks-leigufjárhæð sem eignasjóður þarf að innheimta til þess að standa undir kostnaði vegna reksturs skrifstofuhlutans í Túni er rétt um kr. 80.000 og því nokkuð hærri en sú leiga sem RKÞ leggur til. Ef gengið verður til samninga við RKÞ á því verði sem lagt er til af hálfu samtakanna, þarf að skýra með hvaða hætti hægt verður að tryggja hallalausan rekstur eignasjóðs.
Silja vék af fundi undir þessum lið.
Skipulags- og framkvæmdaráð frestar afgreiðslu málsins til næsta fundar ráðsins.

Fundi slitið - kl. 14:50.