Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

189. fundur 14. maí 2024 kl. 13:00 - 14:30 í fundarsal GB5
Nefndarmenn
  • Soffía Gísladóttir formaður
  • Kristinn Jóhann Lund aðalmaður
  • Eysteinn Heiðar Kristjánsson aðalmaður
  • Birkir Freyr Stefánsson aðalmaður
  • Rebekka Ásgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Aldey Unnar Traustadóttir varamaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
  • Elvar Árni Lund sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs
Fundargerð ritaði: Ketill Gauti Árnason verkefnastjóri á framkvæmdasviði
Dagskrá

1.Öxarfjarðarskóli - Áskorun frá skólaráði Öxarfjarðarskóla

Málsnúmer 202404061Vakta málsnúmer

Á 185. fundi fjölskylduráðs 7.05.2024, var eftirfarandi bókað: Fjölskylduráð vísar áskorunum til umfjöllunar í skipulags- og framkvæmdaráði. Ráðið tekur undir áskoranir skólaráðs Öxarfjarðarskóla og minnir jafnframt á viðhaldslista fjölskylduráðs sem vísað var til skipulags- og framkvæmdaráðs 23. janúar 2024.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar skólaráði Öxarfjarðarskóla fyrir erindið. Ráðið felur sviðstjóra skipulags- og umhverfissviðs að koma með tillögur að úrbótum á vörumóttöku ásamt kostnaðarmati og leggja fyrir ráðið að nýju. Einnig felur ráðið sviðsstjóra að skoða stækkunarmöguleika leikskólalóðar og leggja fyrir ráðið að nýju. Ekki er gert ráð fyrir fjármagni í viðhald á sundlauginni í Lundi á árinu 2024.

2.Fjárfestingar og viðhald Lundur

Málsnúmer 202404122Vakta málsnúmer

Á 175. fundi fjölskylduráðs 7.05.2024 var eftirfarandi bókað: Þar sem ekki var gert ráð fyrir fjármunum á árinu í endurnýjun sundlaugarinnar í Lundi og vegna ástands sundlaugarinnar sér fjölskylduráð sér ekki fært að hafa laugina opna í sumar. Ráðið óskar eftir því við skipulags- og framkvæmdaráð að skoðaðir verði möguleikar fyrir framtíðar staðsetningu sundlaugar á svæðinu og þeir kynntir fyrir fjölskylduráði í aðdraganda næstu fjárhagsáætlunargerðar.
Sökum ástands sundlaugarinnar í Lundi og búnaðar henni tengdri telur Skipulags- og framkvæmdaráð ekki forsvaranlegt að ráðast í frekara viðhald en vísar mögulegri enduruppbyggingu og/eða framtíðar stefnumótun um uppbyggingu og viðhald íþróttamannvirkja til umfjöllunar í Byggðaráði.

3.Erindi frá 2.bekk varðandi leiksvæði við Borgarhólsskóla.

Málsnúmer 202404096Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi sem barst sveitarstjóra frá nemendum í 2. bekk Borgarhólsskóla; ósk um fleiri og fjölbreyttari leiktæki á lóð skólans.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar 2. bekk í Borgarhólsskóla fyrir erindið. Tekið verður tillit til hugmyndanna við hönnun skólalóðarinnar. Í sumar verður settur upp nýr körfuboltavöllur á skólalóðina.

4.Breyting á deiliskipulagi verslunar- og þjónustusvæði V3 við golfvöllinn á Húsavík

Málsnúmer 202402086Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu á tillögu að breytingu deiliskipulags þjónustusvæðis V3 við golfvöllinn á Húsavík. Umsagnir bárust frá Slökkviliði Norðurþings, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Rarik, Orkuveitu Húsavíkur, Minjastofun Íslands, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni og Skipulagsstofnun.

Slökkvilið Norðurþings, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, Minjastofnun Íslands, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun gera ekki athugasemdir við skipulagstillöguna.

Vegagerðin gerir ekki athugasemd við skipulagstillöguna en minnir á að betra sé að halda vegtengingum sem fæstum og því æskilegt að tengja nýtt bílastæði við aðkomu að bílastæði austan þess nýja.

Orkuveita Húsavíkur leggur til að byggingarreit verði hliðrað þannig að hann sé ekki yfir 400 mm vatnslögn veitunnar. Jafnframt óskar Orkuveitan eftir því að sett verði kvöð á lóðina um aðgengi að lögninni til endurnýjunar og viðgerða.

Rarik minnir á háspennustreng sem fer í gegnum fyrirhugaða lóð undir hótel og tilgreinir að gera þurfi ráðstafanir með þann streng þegar til framkvæmda kemur á lóðinni.

Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar umsagnir.

Skipulags- og framkvæmdaráð fellst á að hliðra byggingarreit, þannig að hann nái ekki yfir vatnsveitu og háspennustreng sem sýnd eru á uppdrætti. Ráðið leggur til að aðkoma að bílastæðum verði til samræmis við kynnta tillögu, enda verður umtalsverður hæðarmunur milli bílastæða innan lóðarinnar.

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulagið verði samþykkti með ofangreindri breytingu. Skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa gildistöku skipulagsins að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar.

5.Deiliskipulag fyrir íbúðarsvæði Í1 á Kópaskeri

Málsnúmer 202306047Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu á tillögu að deiliskipulagi íbúðarsvæðis Í1 á Kópaskeri. Umsagnir bárust frá Hverfisráði Öxarfjarðar, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Rarik, Minjastofun Íslands, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun.

Hverfisráð Öxarfjarðar, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, Rarik og Skipulagsstofnun gera ekki athugasemdir við skipulagstillöguna.

Minjastofnun óskar eftir að byggingarár þegar byggðra húsa verði skráð í greinargerð deiliskipulagsins.

Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að fjalla ítarlegar um fráveitumál í greinargerð deiliskipulagsins. Stofnunin bendir á mikilvægi þess að fjallað sé nákvæmlega um hver staða fráveitumála sé í sveitarfélaginu, þar sem komi fram magn og umfang fráveitu, eðli hreinsivirkja og auk þess sé mikilvægt að það komi fram hvert sé ástand viðtakans. Ennfremur bendir stofnunin á að þar sem þörf sé á úrbótum í fráveitumálum þurfi að koma fram stefna sveitarfélagsins varðandi endurbætur og tímaramma endurbóta. Stofnunin telur mikilvægt að aðskilja regn- og skólpvatn til að minnka umfang fráveitunnar og hvetur sveitarfélagið til að skoða aðrar náttúrulegar lausnir s.s. blágrænar ofanvatnslausnir fremur en að veita ofanvatni í fráveitu sveitarfélagsins.

Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar umsagnir.

Skipulags- og framkvæmdaráð telur ekki að fjalla eigi ítarlega um stöðu fráveitumála í sveitarfélaginu, ástand fráveituviðtaka eða stefnu sveitarfélagsins varðandi endurbætur fráveitukerfa í deiliskipulagi einstakra íbúðarsvæða. Stefnumörkun í fráveitumálum verður að vinna á öðrum vettvangi. Ráðið felst á að fella inn í greinargerð deiliskipulagsins umfjöllun um að horft verði til aðskildra fráveitulagna fyrir regnvatn og skólp á skipulagssvæðinu og að horft verði til blágrænna ofanvatnslausna.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulagsfulltrúa að uppfæra greinargerð skipulagstillögunnar með því að færa inn byggingarár þegar byggðra húsa.

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem tilgreindar eru hér að framan. Skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa gildistöku skipulagsins að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar.

Fundi slitið - kl. 14:30.