Fara í efni

Skipulags- og umhverfisnefnd

27. fundur 17. apríl 2018 kl. 16:15 - 19:30 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Sif Jóhannesdóttir formaður
  • Röðull Reyr Kárason aðalmaður
  • Örlygur Hnefill Örlygsson varaformaður
  • Soffía Helgadóttir aðalmaður
  • Jónas Hreiðar Einarsson aðalmaður
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingafulltrúi
Dagskrá

1.Deiliskipulag skíðasvæðis

Málsnúmer 201804100Vakta málsnúmer

Í aðalskipulagi Norðurþings 2010-2030 er afmarkað svæði O4 undir vetraríþróttir. Á seinni árum hefur notkun svæðisins færst verulega í vöxt enda svæðið nú komið í gott vegsamband við þéttbýlið, auk þess sem komin er rafmagnstenging á svæðið. Ljóst er að svæðið býður upp á fjölbreytta útivistarmöguleika allan ársins hring en til að nýta þá til fullnustu er mikilvægt að byggja upp tilheyrandi mannvirki s.s. skíðalyftur og skála. Æskulýðs- og menningarnefnd fjallaði um svæðið á fundi sínum fyrr í dag og óskaði eftir því við skipulags- og umhverfisnefnd að hafin verði vinna við deiliskipulag svæðisins. Kjartan Páll Þórarinsson og Jóhanna Kristjánsdóttir gerðu grein fyrir sjónarmiðum æskulýðs- og menningarnefndar.
Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að hefja vinnu við gerð deiliskipulags af O4. Ennfremur verði skipulagsfulltrúa falið að ræða við Orkuveitu Húsavíkur um afmörkun vatnsverndar innan svæðisins.

2.Deiliskipulag Núpsmýri í Öxarfirði

Málsnúmer 201803144Vakta málsnúmer

Samherja fiskeldi ehf óskar eftir að skipulags- og umhverfisnefnd Norðurþings fjalli um tillögu að skipulags- og matslýsingu fyrir deiliskipulag fiskeldis í Núpsmýri, á iðnaðarsvæði I3. Skipulags- og matslýsingin er unnin af AVH - Arkitektúr - Verkfræði - Hönnun.
Skipulags- og umhverfisnefnd fagnar því að unnið verði deiliskipulag fyrir svæðið. Nefndin hefur skoðað framlagða skipulags- og matslýsingu og telur að hún falli að ramma aðalskipulags fyrir I3. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að lýsingin verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.

3.Aðgerðaáætlun um lúpínu í landi Húsavíkur, samstarfs-og tilraunaverkefni

Málsnúmer 201803142Vakta málsnúmer

Elke Christine Wald hefur fengið úthlutað styrk úr Minningarsjóði Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson til að vinna aðgerðaráætlun um lúpínu í landi Húsavíkur. Fyrirhugað er að útbúa aðgerðaráætlun þar sem grunnur verði lagður að því að verja mólendi í landi Húsavíkur gegn útbreiðslu alaskalúpínu með markvissum hætti. Hún marki þannig upphaf langtíma aðgerða sem byggja á mismunandi aðferðum og fylgt verði eftir með rannsóknum og vöktun.
Smári Lúðvíksson umhverfisstjóri Norðurþings mætti til fundarins og gerði grein fyrir málinu.
Skipulags- og umhverfisnefnd fagnar þessu framtaki Elke. Nefndin fer fram á að samráð verði haft við umhverfisstjóra Norðurþings sem fulltrúa landeiganda.

4.Vegagerðin sækir um framkvæmdarleyfi vegna námu norðan við Hólssel

Málsnúmer 201803131Vakta málsnúmer

Vegagerðin undirbýr nú efnistöku í námu norðan við Hólssel. Ítrekuð er ósk Vegagerðarinnar frá 2015 um að náman verði felld inn í aðalskipulag, ásamt öðrum námum sem tilgreindar voru í erindi frá 2015.
Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að láta vinna tillögu að breytingu aðalskipulags sem felist í því að færa tilgreindar námur inn í aðalskipulag Norðurþings.

5.Umsókn um breytingar á þakhalla á Lyngholti 3

Málsnúmer 201803088Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að auka þakhalla á húsinu úr 1,8° í 6°. Við það hækkar mesta hæð þaks í 3,95 m en er eftir sem áður 55 cm undir leyfilegri hámarkshæð þaksins. Meðfylgjandi erindi er skýringarmynd sem gerir grein fyrir breytingunni og hvernig hún samræmist ákvæðum deiliskipulags.
Þó svo heildarhæð húss sé innan skipulagsramma er vegghæð á vesturhlið meiri en deiliskipulag heimilar. Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að grenndarkynna erindið að Stekkjarholti 16, 18 og 20 og Lyngholti 1 og 5.

6.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi fyrir Gistihúsið Skúlagarð, Kelduhverfi

Málsnúmer 201803074Vakta málsnúmer

Óskað er umsagnar um rekstrarleyfi fyrir gististað með veitingasölu í flokki III. Forsvarsmaður rekstrar verði Helga Sturludóttir
Skipulags- og umhverfisnefnd veitir jákvæða umsögn vegna veitingar rekstrarleyfis fyrir sölu gistingar.

7.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi fyrir Post-Plaza Guesthouse, Garðarsbraut 21

Málsnúmer 201803065Vakta málsnúmer

Óskað er umsagnar vegna gististaðar í flokki II að Garðarsbraut 21 á Húsavík.
Skipulags- og umhverfisnefnd veitir jákvæða umsögn um erindið.

8.Vinnureglur um umsagnir vegna rekstrarleyfa

Málsnúmer 201703047Vakta málsnúmer

Á 66. fundi sveitarstjórnar Norðurþings þann 21. mars 2017 voru samþykktar vinnureglur um umsagnir vegna rekstrarleyfa til sölu gistingar í Norðurþingi. Á þeim tíma var horft til þess að reglurnar yrðu endurskoðaðar í árslok 2017.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að vinnureglurnar frá 21. mars 2017 verði áfram til viðmiðunar vegna umsagna um rekstrarleyfi til sölu gistingar þar til annað verður ákveðið.

9.Umsókn um byggingarleyfi fyrir gistiheimili á Leitinu í Öxarfirði

Málsnúmer 201804108Vakta málsnúmer

Óskað er umsagnar um byggingaráform á lóð L226.606 úr landi Klifshaga 1 og hlotið hefur nafnið Leitið. Fyrir liggur nú skriflegt samþykki flestra nágranna.
Skipulags- og umhverfisnefnd minnir á að í ákvæðum aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 kemur fram að heimilt er að starfrækja gistihús með allt að 20 gistirýmum á landbúnaðarsvæðum. Ef ætlunin er að byggja upp stærri gistihús kallar það á skilgreiningu verslunar- og þjónustusvæðis í aðalskipulagi.

10.Húsavík Adventures sækir um stöðuleyfi fyrir miðasöluhús á þaki Hafnarstéttar 11

Málsnúmer 201804109Vakta málsnúmer

Húsavík Adventures óskar er eftir stöðuleyfi fyrir 2 m² miðasöluhúsi sunnan miðasöluhúss Norðursiglingar við Garðarsbraut. Fyrir liggur ljósmynd af húsinu og skriflegt samþykki lóðarhafa.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir stöðuleyfi fyrir húsinu til 31. október 2018.

11.Ósk um stækkun byggingarreits að Hraunholti 32

Málsnúmer 201804119Vakta málsnúmer

Bjarni Þór Björgvinsson óskar eftir samþykki fyrir því að fara um 2 m suður fyrir byggingarreit á lóðinni að Hraunholti 32.
Skipulags- og umhverfisnefnd fellst á að hús á lóðinni verði teiknað út fyrir byggingarreit, enda vandséð að þetta frávik frá gildandi deiliskipulagi muni hafa áhrif á neina nágranna.

12.Norðlenska matborðið ehf sækir um stöðuleyfi fyrir geymslutjöld í portinu við sláturhús

Málsnúmer 201804124Vakta málsnúmer

Óskað er eftir stöðuleyfi fyrir þrjú 135 m² geymslutjöld á lóð Norðlenska. Stöðuleyfi gildi frá 1. ágúst til 31. desember 2018. Ætlunin er að geyma gærur í tjöldunum. Fyrir fundi liggur rissmynd af staðsetningu og ljósmynd af útliti. Slökkviliðsstjóri gerir ekki athugasemdir við að stöðuleyfi verði samþykkt.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir stöðuleyfi til ársloka 2018 fyrir tjöldunum.

13.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi fyrir GeoSea, Vitaslóð 1

Málsnúmer 201804125Vakta málsnúmer

Óskað er umsagnar vegna umfangslítilla áfengisveitinga við sjóböðin að Vitaslóð 1. Forsvarsmaður veitingasölunnar verði Sigurjón Steinsson.
Jónas vék af fundi við umfjöllun þessa erindis.
Uppbygging sjóbaða og veitingaaðstöðu sem því fylgir er í samræmi við deiliskipulag og samþykkt byggingarleyfi. Á hinn bóginn er húsnæði ekki fullbúið og úttekið. Skipulags- og byggingarfulltrúa er veitt heimild til að veita jákvæða umsögn um erindið þegar öryggisúttekt hefur farið fram með fullnægjandi niðurstöðu.

14.GPG Seafood ehf óskar eftir breytingu á rekstraraðila á Gistiheimilinu Sigtúni

Málsnúmer 201804126Vakta málsnúmer

Með vísan til vinnureglna Norðurþings óskar GPG Seafood umsagnar um hvort skipulags- og umhverfisnefnd muni samþykkja áframhaldandi rekstur gistiheimilis að Túngötu 13 ef skipt er um rekstraraðila.
Gistisölurekstur hefur verið rekinn í Túngötu 13 um langt árabil. Skipulags- og umhverfisnefnd mun ekki leggjast gegn áframhaldandi rekstri á þeim nótum þó skipt verði um rekstraraðila.

15.Tillaga um sameiningu lóða Norðurgarðs 7 og 9

Málsnúmer 201804134Vakta málsnúmer

Örlygur Hnefill Örlygsson leggur til að lóðirnar að Norðurgarði 7 og 9 verði sameinaðar og þar byggð slökkvistöð frekar en á lóðinni að Norðurgarði 5. Örlygur telur að með sínu fallega útsýni og staðsetningu gæti lóðin að Norðurgarði 5 verið ein áhugaverðasta lóð sem úthlutað verði innan Norðurþings á næstu árum og mikilvægt að hún verði byggð upp af myndarskap.
Greinargerð frá Örlygi Hnefli Örlygssyni vegna tillögu um sameiningu lóða að Norðurgarði 7 og 9:
"Við skipulag landfyllingar í norðurhöfn var lagt upp með að ný slökkvistöð yrði staðsett á austustu lóð fyllingarinnar, að Norðurgarði 5. Þegar sú ákvörðun var tekin var stefnt að því að björgunarsveit yrði einnig með aðstöðu í húsinu og þótti lóðin því henta vel vegna aðgengis björgunarbáta að sjó. Jafnframt var horft til þess að tvær lóðir vestan við fyrirhugaða slökkvistöðvarlóð, að Norðurgarði 7 og 9, gætu nýst undir byggingar í þjónustu við iðnaðarstarfssemi á hafnarsvæði. Síðan þá hefur orðið ljóst að björgunarsveit verður ekki með aðstöðu í hinni nýju slökkvistöð og ekki hefur reynst eftirspurn eftir lóðunum að Norðurgarði 7 og 9 frá því að skipulagið var kynnt.

Lóðin að Norðurgarði 5 liggur að lítilli sandfjöru þar sem fram rennur heitt vatn undan höfðanum. Af lóðinni er útsýni yfir fjöruna og að Húsavíkurslippi, og í fjærmynd svæðisins er miðhafnarsvæðið með sinni vaxandi ferðaþjónustu og fallegum húsum.

Mikilvægt er að verja þann hluta fjörunnar sem eftir er, en stærstur hluti hennar er nú kominn undir fyllingar, og tryggja þarf að uppbygging umhverfis sandfjöruna verði snyrtileg og aðlaðandi, enda má öllum sem þekkja hafstrauma og veður á þessu svæði vera ljóst að þegar Garðar Svavarsson og hans fólk kom hér að landi voru bátar dregnir upp í fjöru á þessum slóðum, í skjóli fyrir veðri og vindum. Svæðið hefur því sögulegt gildi fyrir Húsvíkinga og Ísland allt.

Lóðin að Norðurgarði 5 er einnig mjög sýnileg frá miðhafnarsvæðinu, sem og úr bátum sem sigla út og inn úr miðhöfninni. Ásýnd þessa svæðis skiptir miklu um hvernig við þróum áfram ímynd Húsavíkur sem ferðamannastaðar til næstu áratuga. Má horfa til ýmissa bæja víða um land sem hafa vandað sig við uppbyggingu og breytingar á hafnarsvæðum sínum.

Lóðin hefur ótvíræða kosti fyrir uppbyggingu á þjónustustarfsemi, t.d. mætti úthluta henni til uppbyggingar á veitingastöðum, safni, eða verslun. Lóðir sem þessar eru víða erlendis einnig vinsælar til íbúðabyggðar, svonefndar "waterfront"-lóðir. Einnig mætti sjá fyrir sér á þessari lóð mörg smærri hús, jafnvel gömul hús sem flutt væru á lóðina, í bland við ný hús byggð í gömlum stíl. Þegar hefur verið gert ráð fyrir að útlistaverk verði sett upp á fremsta odda fyllingarinnar, við umrædda lóð. Leggur undirritaður mikla áherslu á að allir kostir verði skoðaðir og vandað verði til vals þegar kemur að úthlutun lóðarinnar að Norðurgarði 5.

Verði slökkvistöð byggð upp á sameinuðum lóðum Norðurgarði 7 og 9 mun sú bygging einnig loka á milli lóðarinnar að Norðurgarði 5 og þeirra þungastarfssemi sem mun fara fram vestar á landfyllingunni. Það má því færa rök fyrir því að lóðin að Norðurgarði 5, með sitt fallega útsýni og staðsetningu, gæti verið ein verðmætasta lóð sem Norðurþing hefur að úthluta til spennandi uppbyggingar á næstu árum."

Meirihluti skipulags- og umhverfisnefndar telur tilefni til að endurskoða notkun lóðanna og vísar því til umfjöllunar í hafnanefnd. Jónas sat hjá við þessa afgreiðslu.

16.Kiwanisklúbburinn Skjálfandi óskar eftir umsögn um staðsetningu auglýsingaskiltis.

Málsnúmer 201712034Vakta málsnúmer

Óskað er umsagnar um skilti sem fyrirhugað er að setja upp á þaki verbúðanna. Um er að ræða LED ljósaskilti þar sem ætlunin er að birta tilkynningar og auglýsingar. Stærð skiltis um 140x240 cm. Fyrir liggja skissur af útliti og staðsetningum.
Skipulags- og umhverfisnefnd hugnast ekki staðsetning svo stórs skjás á þaki verbúðar og leggst því gegn erindinu.

Fundi slitið - kl. 19:30.