Fara í efni

Deiliskipulag Núpsmýri í Öxarfirði

Málsnúmer 201803144

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd - 27. fundur - 17.04.2018

Samherja fiskeldi ehf óskar eftir að skipulags- og umhverfisnefnd Norðurþings fjalli um tillögu að skipulags- og matslýsingu fyrir deiliskipulag fiskeldis í Núpsmýri, á iðnaðarsvæði I3. Skipulags- og matslýsingin er unnin af AVH - Arkitektúr - Verkfræði - Hönnun.
Skipulags- og umhverfisnefnd fagnar því að unnið verði deiliskipulag fyrir svæðið. Nefndin hefur skoðað framlagða skipulags- og matslýsingu og telur að hún falli að ramma aðalskipulags fyrir I3. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að lýsingin verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.

Sveitarstjórn Norðurþings - 80. fundur - 24.04.2018

Á 27. fundi skipulags- og umhverfisnefndar var eftirfarandi bókað;

Skipulags- og umhverfisnefnd fagnar því að unnið verði deiliskipulag fyrir svæðið. Nefndin hefur skoðað framlagða skipulags- og matslýsingu og telur að hún falli að ramma aðalskipulags fyrir I3. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að lýsingin verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og umhverfisnefndar.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 1. fundur - 26.06.2018

Nú er lokið kynningu skipulagslýsingar vegna deiliskipulags fyrir fiskeldi í Núpsmýri. Umsagnir bárust frá Náttúrufræðistofnun (tölvupóstur 25. júní), Orkustofnun (tölvupóstur 7. maí), Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra (bréf dags. 22. maí) , Minjastofnun (bréf dags. 18. maí), Matvælastofnun (tölvupóstur 29. maí), Skipulagsstofnun (bréf dags. 30. maí), Vegagerðinni (bréf dags. 31. maí), Umhverfisstofnun (bréf dags. 29. maí)og Gunnari Einarssyni og fjölskyldu á Daðastöðum (bréf dags. 30. maí).
1) Náttúrufræðistofnun bendir á að í skipulags- og matslýsingu sé lítið fjallað um hvar áhersla verði í umhverfismati. Sérstaklega hefði verið rétt að horfa til þátta sem ástæða væri til að skoða m.t.t. rekstrar fiskeldisstöðvar. M.a. sé í lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 að finna ákvæði sem eru leiðbeinandi um hvernig ber að nálgast vernd náttúruminja. Náttúrufræðistofnun leggur áherslu á að í allri skipulagsvinnu sé skoðað hvernig viðkomandi skipulag samræmist almennum markmiðum náttúruverndarlaga. Einnig þarf sérstaklega að huga að einstökum greinum laganna s.s. gr. 6-12 um meginreglur, 14. gr. um hlutverk náttúruverndarnefnda, kafla IV um almannarétt, útivist og umgengni, Kafla IX um friðun vistkerfa, vistgerða og tegunda, 61. gr. um sérstaka vernd vistkerfa, jarðminja o.fl. og 63. gr. um framandi lífverur og svo kafla XII um skipulagsgerð, framkvæmdir og fleira. Náttúrufræðistofnun leggur áherslu á að allar ákvarðanir í skipulagsvinnu byggi á sem bestum þekkingargrunni hvað varðar náttúrufar og alltaf sé leitað leiða til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á náttúruna.

2) Orkustofnun gerir ekki athugasemdir við skipulags- og matslýsingu.

3) Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra gerir ekki athugasemdir við skipulags- og matslýsingu.

4) Minjastofnun telur að skráðum fornleifum stafi ekki bein hætta af fyrirhuguðum framkvæmdum á lóðinni. Stofnunin telur þó mikilvægt að fimm skráðar tóftir í landi Daðastaða séu merktar á meðan á framkvæmdum stendur til að koma í veg fyrir að þær raskist vegna vangár. Útlínur allra uppmældra minja þurfa að koma fram á skipulagsuppdrætti og deiliskipulagstillagan þarf að koma til umsagnar hjá Minjastofnun.

5) Matvælastofnun gerir ekki athugasemdir við skipulags- og matslýsingu.

6) Skipulagsstofnun telur tilefni til að afla umsagnar Náttúrufræðistofnunar um skipulagslýsingu vegna nálægðar skipulagssvæðis við votlendi Öxarfjarðar. Samráð skal haft við almenning og aðra hagsmunaaðila við mótun tillögunnar sbr. gr. 5.1.2 í skipulagsreglugerð. Í lýsingu vantar að gera grein fyrir þeim umhverfisþáttum og áhrifum sem lagt verður mat á við gerð deiliskipulagstillögunnar.

7) Vegagerðin minnir á að sýna þurfi á uppdrætti veghelgunarsvæði sem er 30 m frá miðlínu Norðausturvegar. Eins fer Vegagerðin fram á að fá skipulagið sent til umsagnar á öllum stigum skipulagsferils.

8) Umhverfisstofnun minnir á ákvæði skipulagsreglugerðar (gr. 5.3.2.14) um að ekki skuli reisa mannvirki nær vötnum, ám eða sjó en 50 m. Mikilvægt er að ekki fari mengun frá stöðinni í Núpsvatn og ennig er mikilvægt að framkvæmdir við fiskeldi fari ekki nær Núpsvatni en 50 m. Bent er á að í nágrenni stöðvarinnar er mikið um mýrlendi og mikilvægt að vatnsstaða á votlendissvæðinu raskist ekki við áætlaðar framkvæmdir. Skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd nýtur votlendi 20.000 m² að flatarmáli og stærri sem og stöðuvötn og tjarnir 1.000 m² að flatarmáli eða stærri sérstakrar verndar og ber að forðast röskun þeirra. Öll fráveita skal vera skv. reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999 og mikilvægt að fjallað sé um fráveitu með skýrum hætti í deiliskipulagstillögu. Mikilvægt er að fjallað verði um settjarnir í umhverfisskýrslu væntanlegs deiliskipulags. Loks bendir stofnunin á mikilvægi þess að fram komi áætlanir um það hvernig grófhreinsun á affalli frá nýjum kerjum verði háttað.

9) Gunnar Einarsson og fjölskylda á Daðastöðum gera ýmsar athugasemdir við fiskeldi í Núpsmýri í bréfi sínu til Norðurþings.
9.1. Gunnar telur að Núpi tilheyri ekki nema helmingur af því vatni sem óhætt sé að dæla upp úr Núpsmýri, á móti Daðastöðum. Því sé ekki réttlætanlegt að fiskeldi í landi Núps nýti meira en helming þess grunnvatns sem óhætt sé að taka án röskunar á grunnvatnsstöðu.
9.2. Gunnar gagnrýnir að ekki hafi verið viðhaft samráð við eigendur Daðastaða við kynningu skipulags- og matslýsingarinnar og raunar önnur leyfisveitingarferli vegna fiskeldis í Núpsmýri.
9.3. Gunnar telur að ekki sé fullnægjandi meðhöndlun við losun úrgangs frá fiskeldinu í dag og því ekki að treysta að hún verði betri við stækkaða stöð. Lágmark sé að Íslandsbleikja sýni fram á að fyrirtækið ráði við úrganginn við núverandi stöð áður en þeir fái heimild til að stækka.
9.4. Gunnar telur að fyrirtækið losi saltmengað affallsvatn frá sveltikerjum út í Núpsvatn sem hann telur skýrt brot á 83. gr. vatnalaga.
9.5. Gunnar telur að núverandi vatnstaka úr mýrinni hafi valdið gríðarlegum breytingum á vatnsbúskap svæðisins. Augljóst sé af ummerkjum að grunnvatnsstaða í Núpsmýri er lægri en náttúruleg staða. Áður voru í mýrinni ótal uppsprettur, lækir og votlendi með stararbreiðum. Forarblautt á stórum svæðum. Kjörlendi fyrir fjölbreytt lífríki. Nú er hinsvegar vatn horfið úr þessari fyrrum forblautu mýri. Afleiðingar lækkunar grunnvatns koma m.a. niður á búskap á Daðastöðum.
9.6. Gunnar krefst þess að ferli við leyfisveitingu til stækkunar fiskeldis í Núpsmýri verði stöðvað og mat á umhverfisáhrifum verði tekið upp aftur. Ennfremur verði gerð umfangsmikil úttekt á samspili vatns og dælingar af óháðum sérfræðingum.

Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings þakkar fram komnar umsagnir og athugasemdir. Ráðið hvetur framkvæmdaðila og skipulagsráðgjafa til að gaumgæfa vel þær athugasemdir sem fram hafa komið á þessu stigi og taka mið af þeim við áform um nýtingu svæðisins og deiliskipulagningu þess.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 3. fundur - 10.07.2018

Fyrir liggja frumdrög að deiliskipulagi fiskeldis í Núpsmýri.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að boða til kynningarfundar í samstarfi við framkvæmdaraðila um skipulagshugmyndir í ágúst áður en skipulagstillaga verður tekin til formlegrar umfjöllunar í nefndinni.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 84. fundur - 24.11.2020

Samherji fiskeldi ehf óskar umfjöllunar um hugmyndir að deiliskipulagi fyrir fiskeldi í Núpsmýri. Skipulagslýsing var kynnt vorið 2018 og bárust allmargar umsagnir eins og nánar er bókað í fundargerð ráðsins 26. júní 2018. Rekstraraðili stefnir að áframhaldandi uppbyggingu landeldis í Öxarfirði, en bæði starfsleyfi frá 1. febrúar 2019 og rekstrarleyfi frá 25. júní 2020 miða við hámarkslífmassa upp á 3.000 tonna framleiðslu af laxi og/eða bleikju. Fyrir liggja drög að deiliskipulagi sem samanstendur af greinargerð og uppdrætti. Deiliskipulagið nær til lóðar um fiskeldið en flatarmál hennar er 8,39 ha. Fiskeldinu er ætlað að rúmast innan þess 5,6 ha svæðis innan lóðarinnar sem skilgreint er sem iðnaðarsvæði i3 skv. aðalskipulagi Norðurþings 2010-2030.

Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið, í samráði við framkvæmdaaðila, að kynna fyrirliggjandi skipulagshugmyndir skv. ákvæðum 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 86. fundur - 12.01.2021

Haldinn var kynningarfundur um drög að deiliskipulagi fiskeldis í Núpsmýri á Kópaskeri þann 8. desember s.l. Gögnin voru jafnframt kynnt á vefsíðu Norðurþings frá 8. til 15. desember. Í kjölfar kynningarinnar skilaði Gunnar Einarsson á Daðastöðum athugasemdum við fyrirliggjandi skipulagsdrög. Þar bendir hann á ágalla í greinargerð og gæðum uppdrátta. Almennt telur Gunnar að vatnsborð í Núpsmýri hafi lækkað á undanförnum áratugum vegna grunnvatnsdælinga til fiskeldisins. Honum hugnast ekki að fiskeldi verði aukið í mýrinni, enda líkur til þess að það kalli á auknar dælingar á grunnvatni hvað sem líður yfirlýsingum rekstraraðila um annað. Í því samhengi veltir hann fyrir sér eftirliti með vatnstökunni.

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tillögu að deiliskipulagi þar sem horft hefur verið til þeirra sjónarmiða sem fram komu á kynningarfundinum og í bréfi Gunnars.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan verði kynnt skv. ákvæðum 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sveitarstjórn Norðurþings - 109. fundur - 19.01.2021

Á 86. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað;

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan verði kynnt skv. ákvæðum 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 92. fundur - 23.03.2021

Nú er lokið athugasemdafresti vegna tillögu að deiliskipulagi fiskeldis í Núpsmýri. Umsagnir og athugasemdir bárust frá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Minjasstofnun Íslands, Vegagerðinni, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruverndarnefnd Þingeyinga, Samherja fiskeldi og Gunnari Einarssyni á Daðastöðum.

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti þær umsagnir sem bárust.
Skipulags- og framkvæmdaráð frestar umfjöllun og afgreiðslu umsagnanna.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 93. fundur - 30.03.2021

Á síðasta fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var farið yfir þær athugasemdir sem bárust við kynningu tillögu að deiliskipulagi fiskeldis í Núpsmýri.
Eftirfarandi eru athugasemdir við auglýsta deiliskipulagstillögu og tillögur skipulags- og framkvæmdaráðs til sveitarstjórnar um viðbrögð við þeim.
1. Skipulagsstofnun, bréf dags. 25. febrúar 2021.
a) Sýna þarf legu drenlagnar vegna vatnsöflunar úr sjó. Æskilegt væri að skipulagssvæðið næði yfir legu drenlagnar með vísan til gr. 5.3.1 í skipulagsreglugerð.
Viðbrögð: Skipulagstillaga þessi snýr eingöngu að uppbyggingu á eignarlóð fiskeldisins í Núpsmýri. Ráðið tekur undir að heppilegra hefði verið að leggja upp með að skipulagssvæðið næði til sjótökusvæðisins einnig. Sjótökusvæðið er á jörð í einkaeigu og skv. upplýsingum ráðsins standa yfir samningaumleitanir til að tryggja fiskeldinu frekari afnot af svæðinu. Ráðið telur ekki heppilegt að tefja feril þessarar skipulagstillögu með því að bæta við ítarlegri umfjöllun um sjótökuna. Lega sjólagna verður þó sýnd á yfirlitsmynd.
b) Gera þarf grein fyrir fyrirhugaðri stækkun eldisrýmis í samræmi við tilkynningargögn.
Viðbrögð: Bætt verði við upplýsingum um magntölur í greinargerð skipulagstillögunnar.

2. Umhverfisstofnun, bréf dags. 15. mars 2021.
a) Umhverfisstofnun telur æskilegt að afmörkun deiliskipulagsins nái að sjótökusvæði við sjávarmál.
Viðbrögð: Sjá 1a.
b) Umhverfisstofnun telur mikilvægt að fjallað sé ítarlegar um fjölgun drena sem fyrirhuguð eru og að fjallað verði um umhverfisáhrif þeirrar framkvæmdar.
Viðbrögð: Skipulags- og framkvæmdaráð fellst ekki á að bæta við frekari umfjöllun um fjölgun drena á sjótökusvæði á þessu stigi enda séu þau utan þess svæðis sem deiliskipulagið nær til sbr. 1a. Horft er til þess að fjallað verði um umhverfisáhrif þeirrar framkvæmdar í tengslum við leyfisveitingar vegna uppbyggingar og nýtingar sbr. 2e hér að neðan.
c) Umhverfisstofnun vekur athygli á að vísað er í eldri náttúruverndarlög nr. 44/1999 sem fallin eru úr gildi og að vísa ætti til gildandi laga nr. 60/2013.
Viðbrögð: Tilvísun í náttúruverndarlög verður leiðrétt.
d) Umhverfisstofnun bendir á að unnið er að innleiðingu laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Stofnunin telur mikilvægt að tekið sé tillit til ákvæða laganna í tillögunni. Þungamiðjan í lögum um stjórn vatnamála er sú krafa að öll vatnshlot skulu vera í a.m.k. góðu vistfræðilegu ástandi, góðu efnafræðilegu ástandi og hafa góða magnstöðu ásamt þeirri kröfu að vatnsgæði rýrni ekki.
Viðbrögð: Skýrara verður gert í greinargerð skipulagsins að ekki verði um frekari röskun á votlendi við Núpsvatn en orðið er og að ekki standi til að auka vatnstöku ferskvatns. Ennfremur verði bætt í umhverfisskýrslu greinargerðar upplýsingum um áætlun vöktunar á ástandi Núpsvatns sem taki til vatnsstöðu, gæða vatns og lífríkis.
e) Umhverfisstofun minnir á að sjótaka er leyfisskyld og að sækja þarf um nýtingarleyfi til Orkustofnunar. Tryggja þarf að ástand grunnvatnshlots versni ekki en mat á því hvort jarðsjávartaka hafi neikvæð áhrif á grunnvatnsstöðu er tekin við leyfisveitingu stjórnvalds (OS).
Viðbrögð: Eins og áður kemur fram er ekki horft til þess að fjalla nánar um sjótöku í þessu deiliskipulagi sem eingöngu nær til eignarlóðar fiskeldisins (sjá 1a). Gera verður ráð fyrir að umfjöllun um stöðu grunnvatnshlots og umhverfisáhrif sjódælingar fari fram þegar fjallað verður um leyfi til sjótökunnar og uppbyggingar mannvirkja þar að lútandi.
f) Umhverfisstofnun vekur athygli á að ef tillagan gerir ráð fyrir röskun á votlendi þurfi að rökstyðja þá ákvörðun og gera grein fyrir öðrum kostum sem skoðaðir hafa verið sem mögulegir valkostir við útfærslu framkvæmdarinnar og ástæðum þess að þeir urðu ekki fyrir valinu.
Viðbrögð: Skipulagstillagan gerir sérstaklega ráð fyrir að raska ekki frekar votlendi innan lóðarinnar og gefur athugasemdin því ekki tilefni til viðbragða.
g) Umhverfisstofnun bendir á að skylt er að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis, vegna allra framkvæmda sem fela í sér röskun á svæðum sem njóta sérstakrar verndar, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki. Við mat á leyfisumsókn ber að vega saman mikilvægi náttúruminjanna sem í húfi eru og hagsmuni af fyrirhugaðari framkvæmd.
Viðbrögð: Skipulags- og framkvæmdaráð telur að skipulagstillagan feli ekki í sér heimildir til röskunar á svæðum sem njóta sérstakrar verndar og gefur athugasemdin því ekki tilefni til viðbragða.

3. Minjastofnun Íslands, bréf dags. 3. mars 2021.
a) Minjastofnun telur mikilvægt að fimm tóftir í landi Daðastaða, nærri fyrirhuguðu framkvæmdasvæði, verði merktar á meðan á framkvæmdum stendur til að koma í veg fyrir að þær raskist vegna vangár.
Viðbrögð: Lóð fiskeldisins er skýrlega afmörkuð með girðingu á landamerkjum við Daðastaði. Við framkvæmdir verður til þess horft að þær verði alfarið innan lóðar fiskeldis og muni þannig alls ekki hafa áhrif á skráðar fornminjar í landi Daðastaða. Skipulags- og framkvæmdaráð telur því ekki tilefni til að gera breytingu á deiliskipulaginu vegna ábendingarinnar.

4. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, bréf dags. 27. janúar 2021.
a) HNE bendir á mikilvægi þess að setja upp hreinsibúnað á frárennsli og leggja af settjarnir.
Viðbrögð: Í ljósi athugasemdar/ábendingar Heilbrigðiseftirlitsins hefur Samherji fiskeldi óskað eftir breytingu á byggingarreit frá kynntri tillögu þannig að unnt verði að byggja upp hreinsistöð norðvestanvert á lóðinni sbr. 9a. Í deiliskipulaginu verði umfjöllun um uppbyggingu hreinsistöðvar sem komi í stað núverandi settjarna.

5. Vegagerðin, bréf dags. 11. mars 2021.
a) Vegagerðin hefur samþykkt að jarðvegsmön verði að hluta til innan veghelgunarsvæðis eins og fram kemur í skipulagsgögnum. Vegagerðin bendir á að leyfi Vegagerðarinnar þarf ef ætlunin sé að setja upp upplýsinga- eða auglýsingaskilti innan veghelgunarsvæðis.
Viðbrögð: Af hálfu lóðarhafa er ekki reiknað með neinum skiltum innan veghelgunarsvæðisins. Sett verði inn setning í kafla 4.3 greinargerðar um að afla verði leyfis Vegagerðarinnar fyrir upplýsinga og/eða auglýsingaskiltum innan veghelgunarsvæðis.

6. Náttúrufræðistofnun, tölvupóstur dags. 12. mars 2021.
a) Náttúrufræðistofnun minnir á að Núpsvatn nýtur sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013.
Viðbrögð: Í kafla 5.5.2 er þess getið að Núpsvatn njóti sérstakrar verndar skv. lögum um náttúruvernd. Skipulags- og framkvæmdaráð telur rétt að láta það einnig koma fram í inngangi í kafla 2.2.
b) Núpsvatn og Núpsmýri eru nærri verndarsvæði við Öxarfjörð skv. tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands til B-hluta náttúruminjaskrár. Stofnunin telur að Núpsvatn og Núpsmýri ættu með réttu að tilheyra þessu mikilvæga fuglasvæði og þess að vænta að það verði leiðrétt við næstu endurskoðun. Á Núpsvatni og nærliggjandi votlendi sjást iðulega stórir hópar anda, þ.m.t. allt að 400 grafendur sem er umtalsverður hluti íslenska stofnsins. Það er því rík ástæða til að hlífa þessu svæði við framkvæmdum.
Viðbrögð: Skipulags- og framkvæmdaráð tekur undir mikilvægi þess að hlífa mikilvægu votlendi við Núpsvatn og telur ákvæði deiliskipulagstillögunnar endurspegla vilja landeiganda og rekstraraðila til að vernda votlendið. Ráðið telur rétt að í kafla 5.5.2 verði umfjöllun um nálægð svæðisins við tillögur Náttúrufræðistofnunar til B-hluta náttúruminjaskrár.

7. Náttúruverndarnefnd Þingeyinga, bréf dags. 8. mars 2021.
a) Náttúruverndarnefnd telur að bæði Núpsvatn og Núpsmýri njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Ekki er tilgreint í greinargerð deiliskipulagstillögunnar að Núpsmýri falli undir verndarákvæði náttúruverndarlaga.
Viðbrögð: Skipulags- og framkvæmdaráð fellst á að votlendi í Núpsmýri njóti verndar skv. ákvæðum náttúruverndarlaga og verður umfjöllun þar að lútandi bætt við köflum 2.2 og 5.5.2. Ráðið áréttar þó að það telur fyrirhugað framkvæmdasvæði fiskeldisins aðeins að óverulegu leiti votlendi.
b) Lóð fiskeldisins er á jaðri landsvæðis sem er á náttúruminjaskrá, þ.e. votlendi við Öxarfjörð. Ekki sé minnst á það í greinargerð að fiskeldið sé á svæði sem er innan núverandi náttúruminjaskrár eða í nágrenni við svæði á B-hluta náttúruminjaskrár.
Viðbrögð: Skipulags- og framkvæmdaráð telur ekki að iðnaðarsvæðið í Núpsmýri sé innan svæðis á náttúruminjaskrá en aukið verður við umfjöllun í greinargerð um nálægð skipulagssvæðisins við svæði á náttúruminjaskrá. Ráðið telur rétt að í kafla 5.5.2 verði umfjöllun um nálægð svæðisins við tillögur Náttúrufræðistofnunar til B-hluta náttúruminjaskrár.
c) Náttúruverndarnefnd gerir athugasemdir við að ekki sé vísað í heimildir í greinargerð hvað varðar umfjöllun um þornun lands á svæðinu á undanförnum áratugum.
Viðbrögð: Skýrar verður gert fyrir fyrir heimildum greinargerðar.
d) Náttúruverndarnefnd telur að gera þurfi mælingar á vatnsyfirborði svæðisins fyrir stækkun stöðvar og yfirborðs hæð síðan vöktuð samhliða öðrum vöktunum.
Viðbrögð: Í ljósi forsögunnar tekur skipulags- og framkvæmdaráð undir sjónarmið um að vakta þurfi vatnsstöðu Núpsvatns sérstaklega í tengslum við reksturs fiskeldis á svæðinu. Gerð verður grein fyrir fyrirhugaðri vöktun Núpsvatns í greinargerð.
e) Náttúruverndarnefnd efast um skilvirkni þess öryggiskerfis sem koma á í veg fyrir að dauðir fiskar komist út með frárennsli í Brunná. Ennfremur bendi ríkulegt fuglalíf á Brunná neðan fiskeldis til þess að lífrænt efni fari í talsverðum mæli frá fiskeldinu í Brunná.
Viðbrögð: Fiskeldinu er ætlað að fylgja ströngum skilmálum Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar vegna fráveitu og viðhafa vöktunaráætlun skv. starfsleyfi. Í því felast reglubundnar mælingar á lífrænum efnum og svifögnum í frárennsli. Gerð verður grein fyrir vöktunaráætluninni í greinargerð.
f) Náttúruverndarnefnd telur eðlilegt að gera í deiliskipulaginu grein fyrir skilgreindum uppgræðslusvæðum þar sem reiknað er með að nýta úrgang frá fiskeldinu til landgræðslu.
Viðbrögð: Nýting lífrænna næringarefna úr settjörnum hefur verið unnin í samstarfi við Landgræðsluna og landeigendur á viðkomandi svæði hverju sinni og með samþykki Umhverfisstofnunar. Uppgræðslusvæði má sjá á kortavef Landgræðslunnar. Skipulags- og framkvæmdaráð telur ekki tilefni til að skilgreina þá nýtingu seyru nánar í deiliskipulagi iðnaðarlóðar í Núpsmýri.
g) Náttúruverndarnefnd nefnir að nefndarmönnum hafi borist orðrómur um að einhver losun eigi sér stað frá fiskeldinu í Núpsvatn. Gera þurfi grein fyrir því hvernig komið verði í veg fyrir að einhver efni berist frá fiskeldinu út í Núpsvatn, bæði vegna framkvæmda við uppbyggingu sem og í rekstri fiskeldisins. Eðlilegt sé að ástand Núpsvatns verði vaktað og gerðar nauðsynlegar mælingar fyrir og eftir stækkun fiskeldisins.
Viðbrögð: Ljóst má vera að deiliskipulagstillagan gengur út frá að ekkert frárennsli sé frá fiskeldinu að Núpsvatni. Bætt verður við umfjöllun um fyrirhugaða vöktun á Núpsvatni í greinargerð.
h) Náttúruverndarnefnd telur að lyktarmengun stafi af settjörnum fiskeldisins. Ekki sé fjallað um þau umhverfisáhrif í deiliskipulagstillögunni.
Viðbrögð: Bætt verður við umfjöllun um lyktarmengun vegna settjarna í greinargerð. Í greinargerð verður einnig umfjöllun um fyrirhugaða hreinsistöð innan lóðarinnar þar sem lífrænar agnir verða síaðar úr fráveituvatni áður en það er losað í Brunná. Ekki er fyrirséð lyktarmengum af hreinsistöðinni.
i) Náttúruverndarnefnd gagnrýnir umfjöllun um fábreytt gróðurlendi á iðnaðarlóðinni. Þvert á móti gefi lýsing á gróðri og meðfylgjandi ljósmyndir til kynna að svæðið sé ágætlega gróið. Náttúruverndarnefnd telur að gera þurfi betri grein fyrir gróðri svæðisins í deiliskipulagi.
Viðbrögð: Skipulags- og framkvæmdaráð fellst á sjónarmið um að orðalag greinar 5.5.3 gefur í skyn að gróðurfar á iðnaðarsvæðinu sé fábreyttari en tilefni er til. Orðalag greinarinnar verður mildað hvað það varðar. Rétt er engu að síður að hafa í huga að svæði innan byggingarreits lóðarinnar skv. skipulagstillögunni hefur að stærstum hluta verið raskað í tengslum við rekstur fiskeldis á lóðinni undanfarna áratugi. Flatarmál þess lítt/óraskaða lands sem raskað verður vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar er af stærðargráðunni einn hektari (ha). Heildarflötur sambærilegs kjörlendis á flatlendi umhverfis Núpsvatns er hinsvegar um 220 ha auk vatnsins sjálfs sem er yfir 30 ha að flatarmáli.
j) Í greinargerð skipulagstillögu kemur fram að ekki hafi verið gerð sérstök úttekt á fuglavarpi innan iðnaðarlóðarinnar. Slík úttekt hefði gefið upplýsingar um hvort þar verptu fuglategundir á válista. Ekki er nægilegt að fjalla eingöngu um varpfugla á skipulagssvæðinu, enda getur svæðið verið fuglum mikilvægt utan varptíma. Í því samhengi er vísað til að þess að á Núpsvatni hafi sést hundruðir grafanda sem telji þannig verulegan hluta af íslenskum stofni tegundarinnar. Náttúruverndarnefnd telur að gera þurfi betri grein fyrir fuglalífi svæðisins og áhrifum eldisins á fuglalíf.
Viðbrögð: Eins og áður hefur komið fram felur skipulagstillagan í sér röskun á um 1 ha landi sem lítt hefur verið raskað áður af um 220 ha í sambærilegu kjörlendi í Daðastaðamýri og Núpsmýri. Það vill svo til að fuglaáhugamenn á svæðinu hafa fylgst nokkuð náið með fuglalífi umhverfis fiskeldisstöðina og á Núpsvatni um áratugaskeið. Áhugi fuglaáhugamanna helgast raunar af því að starfsemi af þessu tagi laðar að sér ríkulegt fuglalíf sem annars væri ekki á svæðinu. M.a. er að finna umtalsverð gögn um fuglaathuganir á svæðinu í gagnagrunni Ebird. Ekki verður af gögnum séð að þær athuganir gefi tilefni til að ætla að mikilvægum viðkomustöðum fugla verði raskað vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar innan skipulagssvæðisins. Skipulags- og framkvæmdaráð telur athugasemdina ekki gefa tilefni til breyting á skipulagstillögunni.
k) Náttúruverndarnefnd leggur áherslu á mælt verði núverandi ástand mikilvægra umhverfisþátta sem fiskeldið getur haft áhrif á og því síðan fylgt eftir með skipulegri vöktun samhliða rekstri stöðvarinnar.
Viðbrögð: Gerð verður grein fyrir vöktun umhverfis í greinargerð skipulagstillögunnar eins og ítrekað hefur komið fram.
l) Náttúruverndarnefnd telur tilvísanir í heimildir skipulagsgreinargerðar ófullnægjandi og nefndir jafnframt að vísað er í eldri náttúruverndarlög sem fallin eru úr gildi. Ekki er vísað með tilhlýðilegum hætti í válista plantna og dýra.
Viðbrögð: Farið verður yfir tilvísanir í heimildir og lög og þær lagfærðar.

8. Gunnar Einarsson á Daðastöðum, bréf dags. 14. febrúar 2021.
a) Gunnar telur að framkvæmdaaðili muni ætla að stórauka dælingu á grunnvatni úr borholum innan lóðar og harmar að ekkert eftirlit sé með magni grunnvatns sem dælt er upp.
Viðbrögð: Í skipulagstillögunni er sérstaklega tiltekið að ekki sé gert ráð fyrir aukinni dælingu ferskvatns undan lóðinni vegna fyrirhugaðrar aukningar eldisins. Ferskvatn verður endurnýtt í mun meira en áður hefur verið gert og allri aukinni vatnsþörf verður mætt með sjódælingu. Athugasemdin gefur ekki tilefni til breytinga á skipulagstillögunni.
b) Gunnar telur að eftirlit með starfsemi fiskeldisins hingað til hafi verið verulega ábótavant.
Viðbrögð: Skipulags- og framkvæmdaráð telur mikilvægt að eftirlit með starfsemi sem þessari sé fullnægjandi en telur athugasemdina ekki gefa tilefni til breytinga á deiliskipulagstillögunni.
c) Gunnar segir að Daðastaðamýrin hafi áður verið einstök náttúruperla þar sem grunnvatn bullaði upp á ótal stöðum en að grunnvatnsborð hafi lækkað verulega síðan fiskeldi hófst í mýrinni.
Viðbrögð: Það virðist ekki um deilt að grunnvatnsborð hafi lækkað í votlendi við Núpsvatn á undanförnum áratugum. Á hinn bóginn er ljóst að ekki eru allir sammála um ástæður þeirrar lækkunar. Athugasemdin gefur ekki tilefni til breytingar deiliskipulagstillögunnar.
d) Gunnar telur rangt með farið í greinargerð að land á framkvæmdasvæði sé mýri með lágu birkikjarri. Í ljósi þess að 4 m séu niður á grunnvatn geti svæðið ekki flokkast sem mýri og viðarvöxtur á svæðinu sé loðvíðir fremur en birki.
Viðbrögð: Skipulags- og framkvæmdaráð tekur undir sjónarmið Gunnars um að fyrirhugað framkvæmdasvæði geti ekki flokkast sem mýri og verður það lagfært í greinargerð. Umfjöllun greinargerðar um gróðurfar verður lagfærður til samræmis við ábendingar.

9. Samherji fiskeldi, bréf ódags. sem barst í tölvupósti 8. mars 2021.
a) Í ljósi athugasemdar Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra óskar Samherji Fiskeldi eftir því að byggingarreitur verði stækkaður til norðurs en minnkaður að sama flatarmáli úr suðri. Þannig verði sköpuð rýmildi til uppbyggingar hreinsistöðvar í norðvesturhorni lóðarinnar þar sem hún sé heppilegast staðsett.
Viðbrögð: Skipulags- og framkvæmdaráð fellst á þessa hliðrun byggingarreits innan lóðarinnar. Bætt verði í greinargerð texta um hreinsistöð í norðvesturhluta lóðarinnar.

Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að láta vinna ofangreindar breytingar á deiliskipulagstillögunni og leggja fyrir á næsta fundi ráðsins.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 94. fundur - 13.04.2021

Nú liggur fyrir uppfærð tillaga að deiliskipulagi fiskeldis í Núpsmýri. Breytingar eru í samræmi við bókun ráðsins frá fundi 30. mars s.l. sem inniheldur tillögur að viðbrögðum við þeim athugasemdum sem bárust við kynningu deiliskipulagstillögunnar.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur að komið hafi verið með fullnægjandi hætti til móts við tillögur ráðsins frá síðasta fundi. Ráðið leggur til við sveitarstjórn að deiliskipulagið verði samþykkt með áorðnum breytingum og skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa gildistöku þess.

Sveitarstjórn Norðurþings - 112. fundur - 20.04.2021

Á 94. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað;

Skipulags- og framkvæmdaráð telur að komið hafi verið með fullnægjandi hætti til móts við tillögur ráðsins frá síðasta fundi. Ráðið leggur til við sveitarstjórn að deiliskipulagið verði samþykkt með áorðnum breytingum og skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa gildistöku þess.
Til máls tóku; Bergur og Silja.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 104. fundur - 31.08.2021

Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við deiliskipulag iðnaðarsvæðis I3 í Núpsmýri með bréfi dags. 14. júní s.l. Nú liggur fyrir tillaga skipulagsráðgjafa að endurbótum skipulagsins til samræmis við athugasemdir Skipulagsstofnunar.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulagið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar hafa verið.

Sveitarstjórn Norðurþings - 116. fundur - 21.09.2021

Á 104. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað;

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulagið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar hafa verið.
Til máls tók: Benóný.

Benóný leggur fram eftirfarandi tillögu:
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs. Skipulagstillagan felur í sér byggingarreiti sem eru nær þjóðvegi en 50 m sem tilgreint er sem lágmarksfjarlægð í staflið d greinar 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð. Sú tilhögun er með samþykki Vegagerðarinnar. Skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að leita samþykkis Umhverfis- og auðlindaráðneytis fyrir frávikin.

Samþykkt samhljóða.