Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings
Dagskrá
1.Breyting á aðalskipulagi Norðurþings vegna iðnaðarlóðar á Bakka
Málsnúmer 201303042Vakta málsnúmer
Í svarbréfi Skipulagsstofnunar frá 29. apríl s.l. kemur fram að stofnunin samþykkir ekki að farið verði með tillögu að aðalskipulagsbreytingu vegna iðnaðarlóðar á Bakka sem óverulega. Skipulagsbreytingin falli undir lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 þar sem hún markar stefnu um tilkynningarskyldar framkvæmdir skv. lögum nr. 106/2000. Því er það mat Skipulagsstofnunar að kynna þurfi umrædda skipulagstillögu á grundvelli 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga og kynna samhliða umhverfisskýrslu, skv. 3. mgr. 7. gr. laga um umhverfismat áætlana. Tillaga að aðalskipulagsbreytingunni var kynnt ásamt deiliskipulagstillögu á almennum fundi á Húsavík í mars s.l. Björn Jóhannsson kynnti tillögu að breytingu aðalskipulagsins sem nú innifelur stutta umhverfisskýrslu. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu aðalskipulags ásamt umhverfisskýrslu verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.
2.Deiliskipulag fyrir fiskeldið Rifósi
Málsnúmer 201211017Vakta málsnúmer
Athugasemdafrestur vegna tillögu að deiliskipulagi fiskeldis Rifóss er nú lokið. Engar athugasemdir hafa borist. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, að deiliskipulagstillagan verði samþykkt og gildistaka auglýst.
3.Deiliskipulag fyrir nýjan Dettifossveg
Málsnúmer 201209089Vakta málsnúmer
Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings hefur kynnt sér tillögu að deiliskipulagi þjónustusvæðis og áningarstaðar við Dettifoss. Óverulegur hluti skipulagstillögunnar er innan marka Norðurþings. Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings leggur til við bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, að samþykkt verði af hálfu Norðurþings að skipulagstillagan verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.
4.Ingunn St. Svavarsdóttir sækir um leyfi til að setja niður skúlptúrinn Dans við áningarstað Vegagerðarinnar við Presthólalón
Málsnúmer 201305061Vakta málsnúmer
Óskað er eftir samþykki fyrir að setja niður listaverkið Dans við áningarsvæði við Presthólalón í Núpasveit. Fyrir liggur umsögn Umhverfisstofnunar vegna röskunar á hrauni skv. ákvæðum 37. gr laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Stofnunin telur að við gerð undirstöðu og uppsetningu verksins ætti að leggja áherslu á að raska ekki hrauni frekar en orðið er og leggja áherslu á að framvkæmdin verði afturkræf. Meðfylgjandi erindi eru skissur af listaverkinu og afstöðumynd. Skipulags- og byggingarnefnd tekur undir sjónarmið Umhverfisstofnunar um að lágmarka beri rask við fyrirhugaðar framkvæmdir, en áréttar að svæðinu hefur þegar verið raskað við vegagerð og efnistöku. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir uppsetningu listaverksins.
5.Egill Olgeirsson hjá Mannviti f.h. Norðlenska matborðsins ehf. óskar eftir umsögn nefndarinnar um hugmyndir að stækkun frystiklefa að Suðurgarði 2
Málsnúmer 201306060Vakta málsnúmer
Með erindi eru lagðar fram skissur og greinargerð. Í gildandi deiliskipulagi er ekki gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á lóðinni. Nefndin telur ekki heppilegt að byggja eins nálægt götu eins og sýnt er á teikningum. Nefndin veitir því neikvæða umsögn um erindið.
Fundi slitið - kl. 15:00.