Við erum öll búin að vera áhyggjufull vegna þeirra dæmalausu aðstæðna sem uppi hafa verið sl. mánuð. Það er hreint ekkert óeðlilegt við það enda aðstæðurnar viðsjárverðar, um stöðuna hefur ríkt mikil óvissa og takmarkanir á samskipti fólks í millum aukið á einsemd og kvíða margra. Ótti getur verið mikill og sterkur hvati til þess að breyta hegðun fólks. Það segir sagan okkur og reynsla okkar allra sennilega. Það er aftur á móti varasamt að óttinn ráði algjörlega för og því aðdáunarvert hvað skipstjórarnir þrír í brúnni hafa náð að hvetja þjóðina áfram án þess að auka á óttann sem margir bera undir niðri. Réttar upplýsingar, nægar upplýsingar, góðar útskýringar, húmor og auðmýkt hafa verið meðul þríeykisins sem líknað hefur ástandið umfram annað, að mínum dómi.