Hinn langþráði 4. maí er nú brátt á enda runninn og ég býst við því að allir varpi öndinni ögn léttar yfir því að tilslakanir samkomubannsins hafi loks verið innleiddar. Ef marka má fjarfundina sem ég hef setið undanfarna daga þá finnst mér líklegt að þær lubbalegu samkomur verði með snyrtilegra sniði næstu vikurnar þegar rakarar þessa lands hafa komist yfir mesta covid-hár-stabbann. En í fullri alvöru þá má örugglega til sannvegar færa að stærstu orrustunni í baráttunni við Covid-19 sé lokið hjá okkur (í bili í það minnsta) þótt bardaginn haldi áfram um sinn og allt eins líklegt að langt sé enn til þess að hægt sé að hverfa til fyrra horfs áður en bölvuð veiran yfirtók heimsbyggðina.