Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

198. fundur 01. október 2024 kl. 13:00 - 16:00 í fundarsal GB5
Nefndarmenn
  • Kristinn Jóhann Lund aðalmaður
  • Eysteinn Heiðar Kristjánsson aðalmaður
  • Ingibjörg Benediktsdóttir aðalmaður
  • Rebekka Ásgeirsdóttir varaformaður
  • Alexander Gunnar Jónasson áheyrnarfulltrúi
  • Birna Björnsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Elvar Árni Lund sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Ketill Gauti Árnason verkefnastjóri á framkvæmdasviði
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir stjórnsýslufulltrúi
Dagskrá
Erla Bryndís Kristjánsdóttir frá Verkís kom á fundinn undir lið 1.
Sævar Freyr Sigurðsson frá ráðgjafafyrirtækinu Kvöðull kom á fundinn undir lið 2.
Bergþór Bjarnason fjármálastjóri sat fundinn undir lið 3.
Benedikt Þór Jakobsson rekstrarstjóri Orkuveitu Húsavíkur sat fundinn undir lið 3.

1.Undirbúningur á byggingarlandi í Skógargerðismel

Málsnúmer 202302040Vakta málsnúmer

Landslagsarkitekt á vegum verkfræðistofunnar Verkís fór yfir niðurstöður jarðefnakönnunar og efnisrannsóknir í Skógargerðismel vegna undirbúnings byggingarlands.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar Erlu Bryndísi Kristjánsdóttur fyrir kynninguna.
Ráðið felur sviðsstjóra að vinna málið áfram og kynna málið fyrir ráðinu að nýju.

2.Endurskoðun á fyrirkomulagi sorphirðu

Málsnúmer 202409122Vakta málsnúmer

Kvöðull ráðgjafafyrirtæki kynnti fyrir skipulags- og framkvæmdaráði möguleika til hagræðinga í fyrirkomulagi sorphirðu í Norðurþingi.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar Sæavari Frey Sigurðssyni fyrir kynninguna og komuna á fundinn. Ráðið felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að vinna málið áfram og kynna útfærðar tillögur fyrir ráðinu í haust.

3.Athugasemdir vegna framkvæmda í Ásgarðstúni

Málsnúmer 202409119Vakta málsnúmer

Með tölvupósti dags. 25. september 2024 fer Sandra B. Franks, f.h. eigenda Ásgarðstúns, fram á að yfirstandandi framkvæmdir í Ásgarðstúni verði stöðvaðar tafarlaust og fari ekki af stað aftur fyrr en leyst hefur verið úr ágreiningi. Ennfremur óskar Sandra upplýsinga um hversvegna bréfi Gísla G. Hall lögmanns frá 25. júlí 2023 hefur ekki verið formlega tekið fyrir í sveitarstjórn.
Skipulags- og framkvæmdaráð harmar að bréfi Gísla G. Hall lögmanns hafi ekki verið svarað með formlegum hætti. Þó er minnt á að í kjölfar bréfsins funduðu fulltrúar Norðurþings með lögmanninum. Í framhaldi af því var formuð tillaga að breytingu deiliskipulags svæðisins sem fólst í að færa götuna Stóragarð lengra frá Ásgarði en áðurgildandi deiliskipulag gerði ráð fyrir. Sú skipulagstillaga var grenndarkynnt hagsmunaaðilum og í kjölfarið samþykkt í sveitarstjórn 2. maí 2024.
Ráðið telur óhjákvæmilegt að halda áfram með framkvæmdir við götu í Ásgarðstúni svo núverandi skurður í götustæðinu lendi ekki ófrágenginn inn í veturinn. Samkvæmt erfðafestubréfi er sveitarfélaginu heimilt að leggja götu og lagnir um erfðafestulandið.
Ráðið tekur undir þau sjónarmið að ganga hefði þurft frá samningi áður en framkvæmdir hófust.
Ráðið vísar erindinu til byggðarráðs.

4.Ósk um samþykki fyrir stofnun frístundahúsalóðar úr landi Fjalla 2

Málsnúmer 202406049Vakta málsnúmer

Eigendur Fjalla 2 óska samþykkis fyrir stofnun frístundahúsalóðar úr landi jarðarinnar. Lóðin fái heitið Fjöll 2 lóð 4. Fyrir liggur hnitsett lóðarblað 5.832 m² lóðar unnið af Vigfúsi Sigurðssyni.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að lóðarstofnunin verði samþykkt og að hún fái heitið Fjöll 2 lóð 4.

5.Ósk um stofnun lóðar úr landi Hafurstaða og Bjarmalands

Málsnúmer 202409115Vakta málsnúmer

Eigendur íbúðarhússins að Hafurstöðum í Öxarfirði óska stofnunar lóðar úr óskiptu landi Hafurstaða og Bjarmalands undir íbúðarhúsið. Fyrir liggur hnitsett lóðarblað fyrir 3.373 m² lóð unnið af Hákoni Jenssyni hjá Búgarði. Fyrir liggur skriflegt samþykki landeigenda Hafurstaða og Bjarmalands. Ný lóð fái heitið Hafurstaðir 1.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að stofnun lóðarinnar verði samþykkt og að hún fái heitið Hafurstaðir 1.

6.Yggla leigufélag ehf. óskar eftir að breyta skráningu Stóragarðs 15 í fasteignaskrá

Málsnúmer 202409124Vakta málsnúmer

Yggla leigufélag ehf óskar eftir að húseignin að Stóragarði 15 verði öll skráð sem gistiheimili. Í húsinu eru nú skráðar fjórar íbúðir.
Skv. gildandi aðalskipulagi er Stórigarður 15 á verslunar- og þjónustusvæði. Ráðið telur jafnframt að húsnæðið fullnægi kröfum til gistiheimilis þegar framkvæmdum skv. samþykktum teikningum er lokið. Ráðið samþykkir því breytta skráningu húsnæðisins.

7.Borgarhólsskóli - viðbygging, Fjölnotahúsnæði

Málsnúmer 202311123Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs kynnti breytingar á kostnaði vegna verkfæðihönnunar á viðbyggingu við Borgarhólsskóla.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkti á 196. fundi tilboð frá Eflu vegna verkfræðihönnunar fyrir viðbyggingu við Borgarhólsskóla. Nú liggur fyrir að kostnaður verður hærri þar sem samþykkt hefur verið að kjallari hússins verði að sömu stærð og jarðhæð.

Fundi slitið - kl. 16:00.