Fara í efni

Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings

116. fundur 23. apríl 2014 kl. 13:00 - 13:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Soffía Helgadóttir varaformaður
  • Dóra Fjóla Guðmundsdóttir aðalmaður
  • Sigríður Hauksdóttir aðalmaður
  • Hannes Höskuldsson 3. varamaður
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Sveinbjörn Árni Lund 1. varamaður
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Deiliskipulag iðnaðarlóðar á Bakka, 2. áfangi

Málsnúmer 201312053Vakta málsnúmer

Á fundi skipulagsnefndar 19. mars s.l. voru bókaðar inn athugasemdir Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar við tillögu að deiliskipulagi 2. áfanga iðnaðarsvæðis á Bakka og var skipulagsráðgjafa falið að gera tillögu að viðbrögðum. 1. Vegagerðin leggst gegn krossgatnamótum og leggur því til að teiknuð krossvegamót í deiliskipulagstillögunni verði brotin upp í tvenn T-gatnamót. Skipulags- og byggingarnefnd fellst á að tengingu iðnaðarlóðanna þriggja við þjóðveg nr. 85 verði hliðrað til norðurs til samræmis við tillögu skipulagsráðgjafa að höfðu samráði við Vegagerðina. Skipulagsnefnd fellst ekki á kröfu Vegagerðarinnar um að gert verði rammasamkomulag um vegamót við þjóðveg norðar samhliða afgreiðslu þessa skipulags, enda á sú krafa ekki skýra tilvísun í lög. Nefndin mun hinsvegar hafa samráð við Vegagerðina um skipulagningu nýrra tenginga við þjóðveg eins og verið hefur. 2a) Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að eins þreps skólphreinsistöð verði ekki reist á svæði á náttúruminjaskrá heldur verði staðsett sunnar svo Bakkahöfðinn haldi verndargildi sínu. Skipulagsnefndin fellst á þau sjónarmið. Nú er því stefnt að því að skólpi frá iðnaðarsvæðinu verði dælt til fyrirhugaðs hreinsivirkis við Húsavík. Umfjöllun greinargerðar hefur verið lagfærð m.t.t. núverandi hugmynda. 2b) Að mati Umhverfisstofnunar þyrftu að koma fram í greinargerð þær kröfur sem gerðar eru til frárennslis sem fer í regnvatnskerfi eða er leitt beint til sjávar. Skipulagsráðgjafi hefur gert tillögu að orðalagi greinargerðar um meðhöndlun þess fráveituvatns sem ekki fer til hreinsivirkis og fellst skipulagsnefndin á þá tillögu. 2c) Umhverfisstofnun telur að allt að 20 m há sementssíló fari ekki vel á svæðinu og að mikilvægt sé að við hönnun bygginga verði skoðað vandlega hvar setja skuli hæstu byggingarhluta svo sjónræn áhrif verði sem minnst. Skipulagsnefnd fellst á að bætt verði við setningu í greinargerð um að hæstu mannvirkjum verði valinn staður innan lóðarinnar til að þau valdi sem minnstum sjónrænum áhrifum. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagstillagan með áorðnum breytingum verði samþykkt og skipulagsfulltrúa falið að auglýsa gildistöku að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar.

2.Breyting aðalskipulags Norðurþings vegna ferðaþjónustu í landi Krossdals

Málsnúmer 201401050Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningarfresti breytingar aðalskipulags Norðurþings vegna ferðaþjónustu í landi Krossdals. Innan athugasemdafrests barst athugasemd frá Vegagerðinni um að uppbygging þjónustusvæðis við Krossdal kalli á aukna umferð um núverandi vegtengingar inn á svæðið. Vegtenging að nýju þjónustusvæði er mjög nálægt heimreið að lögbýlinu Árdal eða um 60 m og telur Vegagerðin þessa stuttu fjarlægð óásættanlega til lengri tíma. Hugmynd Vegagerðarinnar felst í að sameina þessar tvær vegtengingar við þjóðveg í eina. Skipulags- og byggingarnefnd fellst fyrir sitt leiti á að heimreiðarnar verði sameinaðar en minnir á að umræddar tengingar hafa verið til staðar til áratuga. Nefndin hvetur Vegagerðina í samráði við hagsmunaaðila til að leysa þessa óheppilegu stöðu, en telur ekki tilefni til umfjöllunar þar að lútandi í aðalskipulagbreytingunni. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að aðalskipulagsbreytingin verði samþykkt eins og hún var kynnt. Skipulagsfulltrúa verði falið að senda skipulagstillöguna til staðfestingar hjá Skipulagsstofnun.

3.Deiliskipulag lóðar undir ferðaþjónustu í landi Krossdals

Málsnúmer 201312021Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningarfresti vegna deiliskipulags lóðar undir ferðaþjónustu í landi Krossdals. Umsögn barst frá Veiðifélagi Litluárvatna þar sem áréttað er að gæta þurfi ítrustu nærgætni við frágang og umgengni á þessum viðkvæma stað í nágrenni Litluár. Sérstaklega þurfi að tryggja að meðhöndlun fráveituvatns fylgi reglum þar að lútandi. Skipulagsnefnd þakkar umsögnina, en telur hana ekki gefa tilefni til breytinga deiliskipulagstillögunnar. Ekki bárust aðrar athugasemdir/umsagnir um skipulagstillöguna á kynningartíma. Skipulags- og byggingarnefnd felur skipulagsráðgjafa að færa inn í skipulagstillöguna ákvæði um hámarks vegghæð og mænishæð þeirra húsa sem reisa má á lóðinni. Í því samhengi telur nefndin hæfilegt að heimila vegghæð upp á allt að 2,8 m og mænishæð risþaks að 4,5 m yfir gólfkóta. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt með umræddum breytingum og að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa gildistöku skipulagsins að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar.

4.Deiliskipulag hótellóðar Stracta

Málsnúmer 201309010Vakta málsnúmer

Með bréfi dags. 9. apríl 2014 bendir Skipulagsstofnun á að ákvæði vanti um hámarkshæð útveggja og mænis fyrirhugaðra bygginga sem og ákvæði um þakform. Ekki sé heldur gerð grein fyrir yfirbragði fyrirhugaðra mannvirkja. Stofnunin óskar leiðréttingar þar á áður en stofnunin tekur afstöðu til afgreiðslu tillögunnar. Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tillögu skipulagsráðgjafa að viðbrögðum við ábendingunum í formi viðbóta við greinargerð. Skipulags- og byggingarnefnd fellst á tillögu skipulagsráðgjafa. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagstillagan verði samþykkt með áorðnum breytingum og skipulagsfulltrúa falið að afla samþykkis Skipulagsstofnunar fyrir auglýsingu gildistöku.

5.Breyting á aðalskipulagi Norðurþings vegna efnisnámu við Grjótháls

Málsnúmer 201404067Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tillögu að breytingu aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 vegna nýrrar efnisnámu við Grjótháls (E38). Í ljós hefur komið að efni úr nærliggjandi efnisnámum skv. gildandi aðalskipulagi er ekki nægilega sterkt í burðarlag vegarins um Reykjaheiði. Hinsvegar fannst mögulegt efnistökusvæði í Grjóthálsi við lagningu vegarins þar sem efni virðist standast gæðakröfur. Landsvirkjun sendi Skipulagsstofnun kynningu á breytingu á matsskyldri framkvæmd þar sem burðarlagsefni yrði tekið úr nýrri námu E38/RHN-1c. Niðurstaða Skipulagsstofnunar er sú að ekki sé um matsskylda framkvæmd að ræða og birtist auglýsing þar að lútandi 3. apríl s.l. Fyrirhuguð efnisnáma er fast við Reykjaheiðarveg á svæði sem skilgreint er sem fjarsvæði vatnsverndar. Til að neikvæð áhrif efnistökunnar verði sem minnst verður náman aðlöguð að landi eins vel og hægt er að efnistöku lokinni. Reynt verður að raska ósnertu landi sem minnst og gróðursvæði sem raskast endurheimt sem kostur er. Landslagi á efnistökusvæðinu hefur þegar verið raskað við vegagerðina. Þær jarðmyndanir sem verða fyrir áhrifum vegna efnistökunnar eru algengar og njóta ekki sérstakrar verndar. Svæðið telst ekki sérstakt eða markvert með tilliti til jarðmyndana og auðvelt er að móta námu á þann hátt að falli vel að landi. Nefndin telur því áhrif námunnar á jarðmyndanir óverulegar. Fyrirhugað námasvæði er á lítt grónum mel, en umhverfis melinn eru lyngmóar. Gróðurlendið sem efnistakan raskar er algengt og hefur ekki sérstakt verndargildi. Umfang efnistöku er lítið og hún við áður raskað svæði. Þéttleiki fuglalífs á svæðinu er lítill og telja má að áhrif efnistökunnar á fuglalíf verði óveruleg. Skipulags- og byggingarnefnd telur þá tillögu að aðalskipulagsbreytingu sem kynnt er vera óverulega og leggur því til við bæjarstjórn að hún verði samþykkt skv. ákvæðum 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsfulltrúa verði falið að senda skipulagstillöguna til staðfestingar hjá Skipulagsstofnun.

6.Landsvirkjun óskar eftir framkvæmdaleyfi fyrir efnisvinnslu úr námu RHN-1c, vegna vegagerðar á Reykjaheiði

Málsnúmer 201404041Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til efnisvinnslu úr nýrri efnisnámu E38 skv. umfjöllun hér að ofan. Meðfylgjandi umsókn er greinargerð um kynningu á breytingu á matsskyldri framkvæmd frá febrúar 2014. Greinargerðin innifelur m.a. ítarlega framkvæmdalýsingu vegna efnistökunnar. Skipulags- og byggingarnefnd telur mikilvægt að farið verði eftir þeim áformum sem sett eru fram í greinargerð um umgang svæðis meðan á vinnslu stendur og frágang þess í verklok til að draga úr neikvæðum sjónrænum áhrifum efnistökunnar til frambúðar. Nefndin telur að rask á jarðmyndunum, gróðri og fuglalífi verði óverulegt vegna efnistökunnar. Nefndin telur að í þeirri aðalskipulagsbreytingu sem er komin í ferli sé gerð nægileg grein fyrir framkvæmdinni og að ekki þurfi að koma til deiliskipulag efnisvinnslunnar.Nefndin leggur því til við bæjarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir efnistökunni þegar aðalskipulagsbreyting hefur verið staðfest.

7.Vegagerðin óskar eftir framkvæmdaleyfi fyrir Dettifossveg(862), Dettifoss - Norðausturvegur

Málsnúmer 201404022Vakta málsnúmer

Óskað er eftir framkvæmdaleyfi vegna gerðar Dettifossvegar frá þjóðvegi upp að slitlagsenda við Dettifoss. Fyrirhugað er að hefja vinnu við 3,5 km vegkafla frá Norðausturvegi að Meiðavallaskógi sumarið 2014 en veturinn 2014-2015 verði boðið út áframhald vegarins, frá Meiðavallaskógi að Dettifossi. Markmið framkvæmdarinnar er að styrkja byggðarlög í Þingeyjarsýslum með bættu vegasambandi milli byggðakjarna og stuðla að farsælli þróun vaxandi ferðamennsku á svæðinu. Nýr vegur mun bæta samgöngur og umferðaröryggi og tryggja heilsárs samgöngur að mikilvægum ferðamannastöðum eins og Dettifossi. Skipulags- og byggingarnefnd telur að framkvæmdin sé í samræmi við samþykkt deiliskipulag Dettifossvegar og að skilað hafi verið inn fullnægjandi gögnum til Norðurþings um framkvæmdina. Nefndin leggur því til við bæjarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir vegagerðinni.

8.Ístak hf. óskar eftir aðstöðu á iðnaðar/þjónustulóð á Bakka fyrir starfsmannabúðir

Málsnúmer 201404054Vakta málsnúmer

Óskað er eftir aðstöðu á skipulagðri iðnaðarlóð á Bakka undir vinnubúðir. Sótt er um til tveggja ára með möguleika á framlengingu síðar. Skipulags- og byggingarnefnd telur það í samræmi við deiliskipulag að nota skipulagðar iðnaðarlóðir undir vinnubúðir. Nefndin leggur því til við bæjarstjórn að Ístaki verði boðinn aðgangur að lóð B3 skv. deiliskipulagi 1. áfanga iðnaðarsvæðis á Bakka. Þar sem ekki er um að ræða tilbúna lóð með tilheyrandi vegtengingum skal áréttað að semja þarf sérstaklega um framkvæmdir og gjöld fyrir afnot lóðarinnar. Þeim þætti er vísað til umfjöllunar í Framkvæmda- og hafnanefnd.

9.Jan Klitgaard f.h Norðurþings sækir um leyfi til að rífa bílskúr sem stendur austan við Kvíabekk

Málsnúmer 201404049Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að rífa bílskúrinn sem stendur austan við Kvíabekk í Skrúðgarðinum. Fyrirhugað er að endurbyggja torfhúsin sem þar stóðu áður. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir niðurrif bílskúrsins og fagnar því framtaki að eldri torfhús verði endurbyggð.

10.Skotfélag Húsavíkur sækir um byggingarleyfi fyrir nýtt aðstöðuhús á svæði félagsins að Vallmóum

Málsnúmer 201404005Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að byggja nýtt aðstöðuhús á svæði félagsins að Vallmóum. Um er að ræða 48 m² timburhús sem teiknað er af Almari Eggertssyni hjá Faglausn. Húsið verði klætt að utan með bárujárni og timbri. Skipulags- og byggingarnefnd telur fyrirhugaða byggingu í samræmi við áður kynntar hugmyndir og heimilar því byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir húsinu þegar fullnægjandi gögn þar að lútandi hafa borist.

11.Bjarni Páll Vilhjálmsson f.h. Saltvíkur ehf. sækir um leyfi til að einangra gamla íbúðarhúsið í Saltvík og klæða utan með bárujárni

Málsnúmer 201403057Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að einangra gamla íbúðarhúsið í Saltvík með steinull og klæða að utan með bárujárni. Erindið var samþykkt af byggingarfulltrúa 17. mars 2014. Skipulags- og byggingarnefnd gerir ekki athugasemd við þessa afgreiðslu.

12.Byggingarskýrsla 2013

Málsnúmer 201403073Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti byggingarskýrslu Norðurþings fyrir 2013.

13.Stefán Guðmundsson f.h. Gentle Giants-Hvalaferða ehf. óskar eftir áframhaldandi stöðuleyfi fyrir eldhús Pallsins

Málsnúmer 201404071Vakta málsnúmer

Með tölvupósti dags. 23. apríl 2014 óska Stefán Guðmundsson, Völundur Snær Völundarson og Þóra Sigurðardóttir eftir að skipulags- og byggingarnefnd heimili eða mæli með áframhaldandi starfsemi Pallsins í þeirri mynd sem verið hefur undanfarin ár og þar til annað kemur í ljós. Skipulags- og byggingarnefnd er ekki leyfisveitandi rekstrarleyfa. Nefndin hefur í tvígang á síðustu fundum fjallað um þann litla skúr sem notaður hefur verið undir eldhús á þaki Hafnarstéttar 7 og hafnað áframhaldandi stöðuleyfi. Það hús er ekki í samræmi við ákvæði deiliskipulags og stenst ekki kröfur byggingarreglugerðar um gæði atvinnuhúsnæðis. Nefndin telur því ekki forsendur fyrir endurnýjun stöðuleyfis fyrir því húsi undir atvinnurekstur.

Fundi slitið - kl. 13:00.