Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti á fundi sínum þann 16. mars s.l. að auglýsa til almennrar kynningar tillögu að deiliskipulagi fyrir miðbæjarsvæði 7, Útgarð og Pálsgarð á Húsavík. Tillaga að deiliskipulagi fyrir miðbæjarsvæði 7 nær yfir byggingarsvæði í miðbæ Húsavíkur sem afmarkast af Ketilsbraut í vestri, Útgarði í norðri og Pálsgarði í austri og suðri. Eldra deiliskipulag fyrir lóðina Útgarð 4-8 mun falla undir skipulagssvæði þessa nýja skipulags. Stefnt er að frekari uppbyggingu íbúða á svæðinu og því þörf á að vinna heildarskipulag fyrir svæðið. Markmið deiliskipulagsins er að skilgreina lóðir og byggingarmagn á svæðinu auk þess að gera grein fyrir staðsetningu göngustíga, tengingu þeirra við núverandi gangstígakerfi.