Fara í efni

Sveitarstjórn Norðurþings

108. fundur 01. desember 2020 kl. 16:15 - 19:50 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir Forseti
  • Hjálmar Bogi Hafliðason 1. varaforseti
  • Silja Jóhannesdóttir 2. varaforseti
  • Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir aðalmaður
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir aðalmaður
  • Kristján Þór Magnússon aðalmaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Hafrún Olgeirsdóttir aðalmaður
  • Hrund Ásgeirsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Berglind Jóna Þorláksdóttir skrifstofu- og skjalastjóri
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Berglind Jóna Þorláksdóttir skrifstofu- og skjalastjóri
Dagskrá
Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri sat fundinn í fjarfundi.

1.Beiðni um lausn frá störfum í kjörstjórn Norðurþings og barnaverndarnefnd Þingeyinga.

Málsnúmer 202011041Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur beiðni frá Hallgrími Jónssyni um lausn úr störfum í yfirkjörstjórn Norðurþings.

Nú þegar hefur beiðni hans um lausn úr störfum í barnaverndarnefnd verið afgreidd hjá Héraðsnefnd Þingeyinga.
Sveitarstjórn þakkar Hallgrími fyrir vel unnin störf í yfirkjörstjórn Norðurþings. Beiðni Hallgríms er samþykkt samhljóða.


Forseti gerir tillögu um að kjörstjórnin verði þannig skipuð:

Ágúst Óskarsson formaður
Berglind Ósk Ingólfsdóttir aðalmaður
Karl Hreiðarsson aðalmaður

Varamenn verði þeir:
Pétur Skarphéðinsson
Hermína Hreiðarsdóttir
Hermann Aðalgeirsson


Ný yfirkjörstjórn er samþykkt samhljóða.

2.Carbon Iceland ehf óskar eftir samstarfi við Norðurþing um uppbyggingu atvinnustarfsemi á Bakka

Málsnúmer 202009089Vakta málsnúmer

Á 343. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað;

Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að staðfesta fyrirliggjandi viljayfirlýsingu og jafnframt að fela sveitarstjóra undirrita hana.
Til máls tóku; Kristján og Bergur.

Sveitarstjórn staðfestir fyrirliggjandi viljayfirlýsingu samhljóða.

3.Tillaga um haf- og strandsvæðaskipulag fyrir Skjálfanda

Málsnúmer 202011116Vakta málsnúmer

Helena Eydís leggur fram tillögu um að óskað verði eftir því við umhverfis- og auðlindaráðherra að hafin verði vinna við haf- og strandsvæðaskipulag fyrir Skjálfanda.
Til máls tóku; Helena, Hjálmar, Bergur og Hafrún.

Helena leggur fram eftirfarandi tillögu;
Árið 2018 voru sett lög um skipulag haf- og strandssvæða. Meðal markmiða laganna er að „skipulag veiti grundvöll fyrir fjölbreyttri nýtingu auðlinda haf- og strandsvæða sem byggist á heildarsýn á málefni hafsins, vistkerfisnálgun og vernd náttúru og menningarminja, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi; enn fremur taki skipulag mið af áhrifum vegna loftslagsbreytinga“.
Skjálfandi er búsvæði nytjastofna, sjávarspendýra, strand- og sjófugla og laxfiska. Flóinn hýsir náttúrufyrirbrigði af ýmsu tagi, neðan og ofan sjávarbotns, með ströndum og til fjalla. Á og við flóann er stunduð afar fjölbreytt nýting auðlinda hvort tveggja í atvinnu- eða afþreyingarskyni íbúa og gesta. Nefna má fiskveiðar, hvalaskoðun og fuglaskoðun. Við ströndina er landvinnsla á fiski, ferðaþjónusta, landfyllingar, hafnarmannvirki, netaveiðar, æðarvarp og rekaviður. Þá eru auðlindir til staðar sem hafa áður verið nýttar eða hafa verið hugmyndir um að nýta. Til dæmis hafa verið gerðar tilraunir með eldi á ostrum á flóanum. Komið hafa fram hugmyndir um vinnslu á olíu- og jarðgasi. Hval- og selveiðar voru stundaðar áður fyrr. Nýverið hafa svo komið fram hugmyndir um nýtingu á öðru sjávarfangi t.d. sjávargróðri.
Á undanförnum áratug hafa orðið umtalsverðar breytingar í sjávarútvegi á Húsavík og hyllir nú undir aukin umsvif við höfnina á ný. Ferðaþjónustu hefur vaxið fiskur um hrygg á hafnarsvæðinu en einnig í Flatey með viðkomu hvalaskoðunarbáta þar og í Tungulendingu með opnun gisti- og kaffihúss. Strandsiglingar eru hafnar á ný með aukinni umferð stórskipa og þá hefur skemmtiferðaskipum fjölgað á flóanum. Sem dæmi má nefna farþegaskip hafa verið 30-40 á undanförnum árum samanborið við 3-4 á fyrstu árum áratugarins. Flutningaskip voru sömuleiðis fá í upphafi 2. áratugar aldarinnar en eru síðastliðin ár rúmlega 60 á ári.
Fjölbreytt nýting flóans og aukin umferð skipa- og báta á undanförnum árum, áform um nýtingu auðlinda sem hingað til hafa ekki verið nýttar, auðlindir sem áhugi kann að verða á í framtíðinni að verði nýttar, kallar allt á að unnið verði skipulag fyrir Skjálfanda sem treystir grundvöll nytja sem þegar eru til staðar hvort sem er í atvinnuskyni eða annað og skapi rými fyrir nýjar nytjar með sjálfbærni að leiðarljósi.
Haf- og strandsvæðisskipulag er skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði á fjörðum og flóum utan staðarmarka sveitarfélaga þar sem sett er fram stefna og ákvarðanir stjórnvalda um framtíðarnýtingu og/eða vernd svæðisins. Skipulagsheimildir sveitarfélaga og réttur jarðeiganda sjávarjarða ná aðeins að netlögum eða 115 m út frá stórstraumsfjöruborði. Án skipulags haf- og strandsvæða hafa þeir sem búa umhverfis haf- og strandsvæði eins og Skjálfanda lítið um það að segja hvers konar nytjar eru stundaðar í nánast umhverfi sínu. Skipulag haf- og strandsvæða er unnið í samvinnu ríkis og sveitarfélaga sem liggja að viðkomandi strandsvæði. Undirrituð leggur til að sveitarfélagið Norðurþing óski eftir því við umhverfis-og auðlindaráðherra að á árinu 2021 verði hafin vinna við haf- og strandsvæðisskipulag fyrir Skjálfanda og það sett fram í viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015-2026 líkt og nú er fyrirhugað að verði gert við Eyjarfjörð eins og sjá í framangreindum viðauka sem er til kynningar og samráðs til 8. janúar næstkomandi.

Hjálmar leggur til að málið verði sent hreppsnefnd Tjörneshrepps og sveitarstjórn Þingeyjarsveitar.

Tillagan er samþykkt samhljóða.

4.Íbúðarhúsnæði á Kópaskeri/ í Öxarfirði

Málsnúmer 202011118Vakta málsnúmer

Framundan er atvinnuuppbygging á Kópaskeri. Skortur á íbúðarhúsnæði á svæðinu má ekki verða til að tefja uppbygginguna og mikilvægt að bregðast við með skipulögðum hætti. Þegar hefur sveitarfélagið óskað eftir samstarfi við ríkisvaldið um uppbyggingu íbúarhúsnæðis á Kópaskeri og þarf að setja kraft í það.

Undirrituð leggja til hafin verði vinna við greiningu á húsnæðismálum á Kópaskeri og í Öxarfirði með það að markmiði að af uppbyggingu íbúarhúsnæðis raungerist á svæðinu.

Bergur Elías Ágútsson
Hafrún Olgeirsdóttir
Hjálmar Bogi Hafliðason
Hrund Ásgeirsdóttir
Til máls tóku; Hrund, Kristján, Kolbrún Ada og Hafrún.

Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.

5.Reglur um notkun innkaupakorta hjá Norðurþingi

Málsnúmer 202010064Vakta málsnúmer

Á 345. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað:

Byggðarráð vísar reglum um notkun innkaupakorta til afgreiðslu í sveitarstjórn.
Sveitarstjórn samþykkir reglurnar samhljóða.

6.Verkferlar við innkaup hjá Norðurþingi

Málsnúmer 202009090Vakta málsnúmer

Á 346. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað;

Byggðarráð samþykkir innkaupastefnuna og verkferla við innkaup og vísar þeim til staðfestingar í sveitarstjórn.
Til máls tóku; Bergur, Kristján, Hjálmar, Helena og Kolbrún Ada.

Sveitarstjórn samþykkir stefnu og verkferla um innkaup samhljóða.

Bergur Elías leggur fram eftirfarandi tillögu:
Frá árinu 2013 hafa verið lýði viðskiptareglur fyrir Norðurþing. Er þess óskað að gerð verði úttekt á eftirfylgni þeirra reglna og hún lögð fyrir byggðarráð.

Sveitarstjórn samþykkir tillöguna með atkvæðum Bergs, Hafrúnar, Hjálmars og Hrundar.
Helena, Heiðbjört og Kristján sátu hjá.
Kolbrún Ada og Silja greiddu atkvæði á móti.

7.Heimildir Orkuveitu Húsavíkur ohf. til úthlutunar arðs

Málsnúmer 202011032Vakta málsnúmer

Á 346. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað;

Helena leggur til við sveitarstjórn að Orkuveita Húsavíkur ohf. greiði eiganda sínum arð á næstu árum og vísar tillögunni til afgreiðslu í sveitarstjórn.
Tillagan er samþykkt með atkvæðum Helenu og Kolbrúnar Ödu.
Hafrún situr hjá.

Hjálmar Bogi óskar bókað;
Undirritaður er ekki sammála afgreiðslu byggðarráðs.
Til máls tóku; Helena, Bergur, Kristján, Hafrún og Hjálmar.

Tillagan er samþykkt með atkvæðum Helenu, Kolbrúnar Ödu, Kristjáns og Silju.
Bergur, Hjálmar og Hrund greiða atkvæði á móti.
Hafrún og Heiðbjört sitja hjá.

8.Endurgreiðsluhlutfall vegna réttindasafns Lífeyrissjóðs starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar

Málsnúmer 202001140Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur erindi frá Brú lífeyrissjóði þar sem lagt er til að endurgreiðsluhlutfall vegna réttindasafns Lífeyrissjóðs starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar fyrir árið 2021 verði óbreytt frá fyrra ári eða 71%.
Til máls tók; Bergur.

Samþykkt samhljóða.

9.Gjaldskrá Hitaveitu Öxarfjarðar 2021

Málsnúmer 202011082Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur gjaldskrá Hitaveitu Öxarfjarðar en samkv. 3. grein reglugerðar nr 261/2003 fyrir Hitaveitu Öxarfjarðarhéraðs hf. skal haft samráð við sveitarstjórn vegna gjaldskrárbreytinga.
Samþykkt samhljóða.

10.Gjaldskrár Norðurþings 2021

Málsnúmer 202011113Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggja til staðfestingar gjaldskrár sveitarfélagsins vegna ársins 2021.

Gjaldskrár félagsþjónustu:
Gjaldskrá Þjónustan Heim - lagt til hækkun um 7% samkvæmt fyrirliggjandi gögnum miðað við fyrra ár
Gjaldskrá vegna þjónustu við stuðningsfjölskyldna - lagt til hækkun um 5% samkvæmt fyrirliggjandi gögnum miðað við fyrra ár
Gjaldskrá vegna frístundar barna og ungmenna 10 - 18 ára - lagt til hækkun um 3% samkvæmt fyrirliggjandi gögnum miðað við fyrra ár
Gjaldskrá félagsþjónustu heimsendur matur - lagt er til hækkun um 3% samkvæmt fyrirliggjandi gögnum miðað við fyrra ár
Gjaldskrá Miðjan - Hæfing - um er að ræða nýja gjaldskrá
Gjaldskrá skammtímadvöl - um er að ræða nýja gjaldskrá
Gjaldskrá ferðaþjónustu - varðandi ferðaþjónustu aldraðra er lagt til 19% hækkun samkvæmt fyrirliggjandi gögnum miðað við fyrra ár, varðandi aðra ferðaþjónustu er um að ræða nýja gjaldskrá vegna lagabreytingar í málaflokki fatlaðra



Gjaldskrár fræðslusviðs:
Gjaldskrá leikskóla - lagt til hækkun um 3% samkvæmt fyrirliggjandi gögnum miðað við fyrra ár
Gjaldskrá frístund - lagt til hækkun um 3% samkvæmt fyrirliggjandi gögnum miðað við fyrra ár
Gjaldskrá Tónlistarskóli Húsavíkur - lagt til hækkun um 3% samkvæmt fyrirliggjandi gögnum miðað við fyrra ár
Gjaldskrá skólamötuneyta í Norðurþingi - lagt er til óbreytta gjaldskrá samkvæmt fyrirliggjandi gögnum miðað við fyrri ár



Gjaldskrár tómstunda- og æslulýðssviðs:
Gjaldskrá íþróttamannvirkja - lagt til hækkun um 4,45% að meðaltali samkvæmt fyrirliggjandi gögnum miðað við fyrri ár
Gjaldskrá tjaldsvæða - lagt til hækkun um 6,8% að meðaltali samkvæmt fyrirliggjandi gögnum miðað við fyrri ár



Gjaldskrár framkvæmdasvið:
Gjaldskrá vegna landleigu - um er að ræða nýja gjaldskrá
Gjaldskrá vegna gámaleigusvæðis í Haukamýri - um er að ræða nýja gjaldskrá
Gjaldskrá þjónustumiðstöðvar - lagt er til óbreytta gjaldskrá samkvæmt fyrirliggjandi gögnum miðað við fyrri ár
Gjaldskrá rotþróargjald - lagt er til hækkun um 18% samkvæmt fyrirliggjandi gögnum miðað við fyrri ár
Gjaldskrá vegna hunda- og kattahalds - lagt er til hækkun um 2,5% samkvæmt fyrirliggjandi gögnum miðað við fyrri ár



Gjaldskrá hafnasjóðs - lagt til hækkun um 2,6% samkvæmt fyrirliggjandi gögnum miðað við fyrri ár


Gjaldskrár félagsþjónustu eru samþykktar samhljóða.

Gjaldskrár fræðslusviðs eru samþykktar samhljóða.
Til máls tóku undir gjaldskrá skólamötuneyta í Norðurþingi; Hafrún og Kristján.

Gjaldskrár tómstunda- og æskulýðssviðs eru samþykktar samhljóða.

Gjaldskrár framkvæmdasviðs eru samþykktar með atkvæðum allra nema Bergs sem situr hjá.

Gjaldskrá hafnasjóðs er samþykkt samhljóða.



11.Álagning gjalda 2021

Málsnúmer 202011045Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur yfirlit um álagningu gjalda vegna fjárhagsáætlunar 2021 og þriggja ára áætlunar 2022-2024.

Útsvar 14,52%

Fasteignaskattur:

A flokkur
0,475%

B flokkur
1,32%

C flokkur
1,55%



Lóðaleiga 1
1,50%


Lóðaleiga 2
2,50%

Vatnsgjald:


A flokkur
0,050%
B flokkur
0,450%
C flokkur
0,450%


Holræsagjald:

A flokkur
0,100%
B flokkur
0,275%
C flokkur
0,275%

Sorphirðugjald:
A flokkur - Heimili
56.724
B flokkur - sumarhús
28.313
Tillaga um útsvar er samþykkt samhljóða.

Tillaga um fasteignaskatt er samþykkt samhljóða.

Tillaga um lóðaleigu er samþykkt samhljóða.

Tillaga um vatnsgjald er samþykkt með atkvæðum allra nema Bergur situr hjá.

Tillaga um holræsagjald er samþykkt samhljóða.

Tillaga um sorphirðugjald er samþykkt með atkvæðum Helenu, Heiðbjartar, Kolbrúnar Ödu, Kristjáns og Silju.
Hafrún, Hrund og Hjálmar greiða atkvæði á móti.
Bergur situr hjá.

12.Fjárhagsáætlun Norðurþings 2021

Málsnúmer 202006044Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fjárhagsáætlun ársins 2021 og þriggja ára áætlun vegna áranna 2022-2024 til síðari umræðu.
Til máls tóku; Kristján, Hjálmar, Helena, Bergur og Hafrún.

Meirihluti leggur fram eftirfarandi bókun;
Líkt og undanfarin ár hefur fjárhagsáætlun Norðurþings verið unnin í góðri samvinnu kjörinna fulltrúa og nefndarfólks í ráðum sveitarfélagsins. Lítill eða enginn ágreiningur hefur verið uppi um aðgerðirnar sjálfar, heldur frekar um forgangsröð þeirra.
Fyrir árið 2020 hafði byrjað að hægjast á hagvexti sem sýndi sig m.a. í fækkun ferðamanna. Í fjárhagsáætlun ársins var gert ráð fyrir að tekjur myndu aukast lítillega. Álögur á íbúa varðandi fasteignaskatt voru lækkaðar og gjaldskrár sveitarfélagsins tóku almennt litlum hækkunum. Nýgerðir kjarasamningar og heimsfaraldurinn COVID-19 hafa leitt af sér að kostnaður jókst hjá sveitarfélaginu. Í útkomuspá ársins 2020 stefnir því í tæplega 100 mkr halla. Ekki er séð fyrir endann á áhrifum og afleiðingum COVID-19 þó nú hylli undir bóluefni gegn sjúkdómnum og betri tíð. Óhjákvæmilega hefur gerð fjárhagsáætlunar ársins 2021 og þriggja ára áætlunar fyrir árin 2022-2024 litast af framangreindu.
Við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2021 og þriggja ára áætlunar fyrir árin 2022-2024 eru hófstilltar væntingar til tekjuaukningar. Lögð hefur verið áhersla á að að verja störf og þjónustu hjá sveitarfélaginu, stofnunum og fyrirtækjum þess. Gerðar hafa verið breytingar á launakjörum með því að segja upp fastri óunninni yfirvinnu, seinka launahækkunum stjórnenda og lækka laun kjörinna fulltrúa og nefndarmanna. Þetta setjum við í forgang þar sem við lítum svo á að við séum í miðjum uppbyggingarfasa iðnaðarsvæðisins á Bakka, starfsemi þar fari á gott skrið á fyrri hluta ársins og að nýgerðar viljayfirlýsingar leiði til þess á komandi árum að umsvif þar aukist. Á Kópskeri er hafin uppbygging á landeldi á laxi og þar um kring hafa þónokkur smáfyrirtæki komist á legg á undanförnum misserum. Við horfum til þess að eftir fækkun íbúa á árinu taki þeim aftur að fjölga á næsta ári. Við lítum jafnframt svo á að hér muni áfram verða blómleg ferðaþjónusta og önnur atvinnustarfsemi þegar heimsfaraldurinn verður ráðinn niður. Þá eru framundan tvö stór fjárfestingarverkefni, annars vegar bygging hjúkrunarheimilis og hins vegar bygging íbúðakjarna fyrir fatlaða. Við teljum því ekki rétt að fækka starfsfólki innan stjórnsýslu sveitarfélagsins eða stofnana þess, heldur að taka á okkur ölduna og rísa upp aftur til áframhaldandi sóknar við uppbyggingu atvinnulífs, þjónustu og innviða og móttöku nýrra íbúa.
Rétt er að árétta það að fjárhagsáætlunin er bindandi rammi á þær fjárheimildir sem til staðar verða á næsta ári og til þriggja ára. Gæta þarf þess að þær fjárheimilidir til rekstrarins sem hér hafa verið samþykktar verði virtar við úrlausn þeirra verkefna sem við blasa á næsta ári.
Undirrituð vilja koma á framfæri þakklæti til starfsfólks sveitarfélagsins fyrir góða vinnu við gerð áætlunarinnar og fulltrúum allra stjórnmálaflokka fyrir samstarfið á meðan vinnslu fjárhagsáætlunar hefur staðið.

Minnihluti leggur fram eftirfarandi bókun;
Óhætt er að segja að árið 2020 hafi verið erfitt fyrir land og þjóð. Við höfum tekist á við áskoranir sem engan óraði fyrir með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfi landsins og starfsemi fyrirtækja. Hver áhrifin verða á okkar samfélag liggur ekki endalega fyrir. Staða ferðaþjónustunnar, sérstaklega minni fyrirtækja er áhyggjuefni. Áhrif á rekstur sveitarfélagsins eru enn sem komið er óveruleg.
Blessunarlega hefur Norðurþing gengið í gegnum mikið hagvaxtarskeið undanfarin ár, með gríðarlegum fjárfestingum og tekjuaukningu sveitarfélagsins. Frá árinu 2013 til ársins 2021 er gert ráð fyrir að tekjur hafi aukist um 85%, úr 2,7 milljörðum króna í ríflega 5 milljarða. Sveitarfélagið Norðurþing ætti að vera eitt þeirra fáu sveitarfélaga sem eru vel í stakk búin til að mæta fjárhagslegum áskorunum sem fylgja Covid-19. Því miður er það ekki raunin.
Á tímum sem þessum á að skipta öllu máli að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki sveitarfélagsins, samhliða rekstrar hagræðingu og ögun í framkvæmdum. Að frumkvæði minnihluta hefur álagning fasteignaskatts verið lækkuð, en vegur ekki upp á móti þeim gríðarlegu hækkunum sem verið hafa undanfarin ár. Jafnframt er gríðarlega mikilvægt að halda vel utan um íþrótta, æskulýðsstarf og félagsstarf í sveitarfélaginu á tímum sem þessum. Í fjárhagsáætlunargerðinni var það áhersla meirihluta sveitarstjórnar að lækka framlög til framangreindrar starfsemi um 10%, eða um 13% að raungildi. Minnihlutinn mun ekki með nokkru móti geta stutt slíkar áherslur og leggur til að fjárframlag verði óbreytt á næsta ári að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Í þjónustukönnunum Gallup kemur í ljós að óánægja eykst meðal barnafjölskyldna og hvernig sveitarfélagið sinnir menningarmálum. Sömuleiðis dregur úr ánægju fólks með aðstöðu til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Miðað við áherslur meirihlutans sem birtast í fjárhagsáætlun stendur ekki til að bregðast við þeirri óánægju.
Framkvæmdir verða af skornum skammti á komandi ári, hjá B hluta 188 milljónir, þar af Orkuveita Húsavíkur um 140 m.kr. Eignasjóður um 237 m.kr. Framlög til umhverfismála sem og viðhalds verða takmörkuð.
Það er áhyggjuefni að útsvar og aðrir skattstofnar A-hluta duga ekki fyrir launakostnaði. Gert er ráð fyrir verulegri aukningu í framlagi jöfnunasjóðs sveitarfélaga á árinu 2021. Að auki er staðið frammi fyrir byggingu nýs hjúkrunarheimilis sem þýðir að eftir stendur Hvammur sem er stórt og mikið húsnæði sem þarfnast kostnaðarsamra endurbóta. Ekki liggur fyrir hvað verður um framtíðarnýtingu hússins. Stór og mikil viðfangsefni munu því líta dagsins ljós.
Það er vilji okkar sem sitjum í minnihluta sveitarstjórnar að ráðdeild sé höfð að leiðarljósi í rekstri og vandað sé til verka þegar fjallað er um almannafé. Allir kjörnir fulltrúar eru samábyrgir í þeim ákvörðunum sem teknar eru. Bæta þarf þjónustu við börn og ungmenni í öllu sveitarfélaginu, ljúka framkvæmdum sem sveitarfélagið ræðst í og stöðva framúrkeyrslur verkefna og málaflokka. Auknar tekjur verða ekki sóttar í vasa fjölskyldna og fyrirtækja til að fóðra rekstur sveitarfélagsins.
Virðingarfyllst
Bergur Elías Ágústsson
Hafrún Olgeirsdóttir
Hjálmar Bogi Hafliðason
Hrund Ásgeirsdóttir


Fjárhagsáætlun 2021 borin undir atkvæði og samþykkt með atkvæðum Helenu, Heiðbjartar, Kolbrúnar Ödu, Kristjáns og Silju. Bergur, Hjálmar og Hrund greiða atkvæði á móti. Hafrún situr hjá.


Þriggja ára áætlun 2022-2024 borin undir atkvæði og samþykkt með atkvæðum Helenu, Heiðbjartar, Kolbrúnar Ödu, Kristjáns og Silju. Bergur, Hjálmar, Hrund og Hafrún sitja hjá.

13.Stytting vinnuvikunnar - tillögur frá dagvinnu starfsstöðvum Norðurþings

Málsnúmer 202011112Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til staðfestingar tillögur um styttingu vinnuvikunnar frá eftirfarandi dagvinnu starfsstöðvum Norðurþings:

Stjórnsýsluhúsið á Húsavík og Kópaskeri
Stjórnsýsluhúsið á Raufarhöfn
Grunnskólinn á Raufarhöfn
Borgarhólsskóli

Aðrar dagvinnustöðvar eru að vinna að sínum tillögum um styttingu.
Til máls tóku; Kristján, Bergur og Hjálmar.

Tillögurnar eru samþykktar samhljóða til eins árs frá 1. janúar 2021 til 31. desember 2021.

14.Starfsreglur leikskóla - Endurskoðun og breytingar

Málsnúmer 202010211Vakta málsnúmer

Á 79. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað;

Fjölskylduráð samþykkir uppfærðar starfsreglur leikskóla Norðurþings og vísar þeim til staðfestingar í sveitarstjórn.
Til máls tóku; Heiðbjört, Hafrún og Hjálmar.

Hafrún leggur fram eftirfarandi bókun;
Ég harma þá ákvörðun sveitarfélagsins að stytta opnunartíma leikskólans. Áframhaldandi opnunartími til 16:30 þarf ekki að leiða til yfirvinnu starfsfólks á leikskólanum eða lengri viðveru barna á leikskólanum. Smá sveigjanleiki er lykilatriði í samspili fjölskyldu- og atvinnulífs til að koma til móts við sem flesta. Mín skoðun er sú að sveitarfélagið sem rekur leikskólann þarf að gera sitt besta til að mæta þörfum barnanna, leikskólans, foreldranna og atvinnulífsins. Það samspil getur verið flókið en mér finnst lágmarkskrafa að hafa leikskólann opinn áfram til 16:30 gegn viðeigandi gjaldi fyrir þá þjónustu og finnst mér það hin ágætasta málamiðlun til að koma til móts við alla hlutaðeigandi aðila.
Hafrún Olgeirsdóttir.

Starfsreglurnar eru samþykktar með atkvæðum Helenu, Heiðbjartar, Kolbrúnar Ödu, Kristjáns og Silju.
Hafrún greiðir atkvæði á móti.
Bergur, Hjálmar og Hrund sitja hjá.

15.Hraðatakmarkanir á Húsavík og annarra þéttbýlisstaða innan Norðurþings

Málsnúmer 201709113Vakta málsnúmer

Á 82. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað;

Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að breyta auglýsingu með tilliti til umferðahraða við Norðausturveg (þjóðv. 85) inn á Héðinsbraut norðan Húsavíkur (við Gónhól til suðurs) að gatnamótum við Traðargerði til samræmis við fyrirliggjandi kort. Ráðið heimilar auglýsinguna að öðru leiti og vísar henni til afgreiðslu í sveitarstjórn.
Til máls tóku; Hjálmar, Silja, Kristján og Kolbrún Ada.

Hjálmar leggur til að stöðvunarskylda í B19.11 Uppsalavegi inn á Mararbraut (Stangarbakka) og Uppsalavegi inn á Garðarsbraut (austur/vestur) verði biðskylda.

Tillaga Hjálmars er samþykkt öllum greiddum atkvæðum nema Silju sem situr hjá.


Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs með breytingartillögu Hjálmars samhljóða.

16.Ósk um breytingu á Aðalskipulagi Norðurþings vegna uppbyggingu vindorkuvers á Hólaheiði

Málsnúmer 202009002Vakta málsnúmer

Á 82. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað;

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulags- og matslýsingin verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs.

17.Breyting aðalskipulags vegna uppbyggingar í Auðbrekku

Málsnúmer 202011018Vakta málsnúmer

Á 84. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað;

Skipulags- og framkvæmdaráðs telur fyrirliggjandi tillögu að breytingu aðalskipulags svo óverulega að ekki sé tilefni til meðferðar skv. 30.-32. gr. skipulagslaga og leggur því til við sveitarstjórn að skipulagsbreytingin verði samþykkt sem óveruleg breyting með vísan til 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga. Breytingin felur í sér nokkra stækkun á landnotkunarreit Þ1 til norðausturs inn á óbyggt svæði og lítillega inn í reit Í3. Markmið breytingarinnar er að færa fyrirhugaða byggingu hjúkrunarheimilis nokkru lengra frá gróinni íbúðarbyggð í Auðbrekku en upphaflega var kynnt og stækka jafnframt dvalarsvæði lóðar upp í brekkuna þar sem það tengist aðliggjandi útivistarsvæði. Sá hluti Í3 sem skerðist vegna stækkunar Þ1 er óbyggður og ekki áætlanir um uppbyggingu innan hans. Fyrirhuguð uppbygging er eftir sem áður í samræmi við það umfang sem skilgreint var í hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs.

18.Deiliskipulag fyrir heilbrigðisstofnanir á Húsavík

Málsnúmer 201909080Vakta málsnúmer

Á 84. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað;

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan verði kynnt skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga samhliða kynningu breytinga skipulagsmarka deiliskipulags íbúðarsvæðis í Auðbrekku.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs.

19.Breyting deiliskipulags í Auðbrekku

Málsnúmer 202011019Vakta málsnúmer

Á 84. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað;

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að tillaga að breytingu skipulagsmarka íbúðarsvæðis í Auðbrekku verði kynnt skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga samhliða kynningu deiliskipulags svæði heilbrigðisstofnana á Húsavík.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs.

20.Breyting á deiliskipulagi Rifóss

Málsnúmer 202009019Vakta málsnúmer

Á 84. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað;

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að tillaga að breytingu deiliskipulags fiskeldis Rifóss verði samþykkt eins og hún var kynnt
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs.

21.Skýrsla sveitarstjóra

Málsnúmer 201605083Vakta málsnúmer

Kristján Þór Magnússon gerði grein fyrir þeim ýmsu verkefnum sem unnið hefur verið að síðastliðinn mánuð.
Til máls tók; Kristján.

Lagt fram til kynningar.

22.Byggðarráð Norðurþings - 343

Málsnúmer 2010007FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 343. fundar byggðarráðs Norðurþings.
Til máls tóku undir lið 17 "Samstarf um uppbyggingu Maríu Júlíu BA36 - verkefnishópur": Hjálmar og Helena.

Aðrir liðir fundargerðarinnar lagðir fram til kynningar.

23.Byggðarráð Norðurþings - 344

Málsnúmer 2011001FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 344. fundar byggðarráðs Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

24.Byggðarráð Norðurþings - 345

Málsnúmer 2011003FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 345. fundar byggðarráðs Norðurþings.
Til máls tók undir lið 1 "Staða atvinnulífs í Norðurþingi": Hjálmar.

Aðrir liðir fundargerðarinnar lagðir fram til kynningar.

25.Byggðarráð Norðurþings - 346

Málsnúmer 2011006FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 346. fundar byggðarráðs Norðurþings.
Til máls tóku undir lið 1 "Uppbygging golfskála á Katlavelli": Bergur og Helena.

Til máls tóku undir lið 6 "Fjárhagsáætlun íþrótta og tómstundamála 2021": Hjálmar og Kristján.

Aðrir liðir fundargerðarinnar lagðir fram til kynningar.

26.Fjölskylduráð - 76

Málsnúmer 2010008FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 76. fundar fjölskylduráðs Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

27.Fjölskylduráð - 77

Málsnúmer 2010011FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 77. fundar fjölskylduráðs Norðurþings.
Til máls tók undir lið 7 "Félagsmiðstöðin Tún - húsnæðismál": Heiðbjört.

Aðrir liðir fundargerðarinnar lagðir fram til kynningar.

28.Fjölskylduráð - 78

Málsnúmer 2011002FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 78. fundar fjölskylduráðs Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

29.Fjölskylduráð - 79

Málsnúmer 2011008FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 79. fundar fjölskylduráðs Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

30.Skipulags- og framkvæmdaráð - 81

Málsnúmer 2010006FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 81. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

31.Skipulags- og framkvæmdaráð - 82

Málsnúmer 2010010FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 82. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

32.Skipulags- og framkvæmdaráð - 83

Málsnúmer 2011005FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 83. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

33.Skipulags- og framkvæmdaráð - 84

Málsnúmer 2011007FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 84. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

34.Orkuveita Húsavíkur ohf - 212

Málsnúmer 2010009FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 212. fundar Orkuveitu Húsavíkur ohf.
Lagt fram til kynningar.

35.Orkuveita Húsavíkur ohf - 213

Málsnúmer 2011004FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 213. fundar Orkuveitu Húsavíkur ohf.
Til máls tóku undir lið 4 "Rekstraráætlun OH 2021": Bergur og Kristján.

Aðrir liðir fundargerðarinnar lagðir fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 19:50.