Fara í efni

Sveitarstjórn Norðurþings

103. fundur 19. maí 2020 kl. 16:15 - 20:35 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir Forseti
  • Hjálmar Bogi Hafliðason 1. varaforseti
  • Silja Jóhannesdóttir 2. varaforseti
  • Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir aðalmaður
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir aðalmaður
  • Kristján Þór Magnússon aðalmaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Hafrún Olgeirsdóttir aðalmaður
  • Hrund Ásgeirsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Berglind Jóna Þorláksdóttir skrifstofu- og skjalastjóri
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Berglind Jóna Þorláksdóttir skrifstofu- og skjalastjóri
Dagskrá
Ragnar Jóhann Jónsson endurskoðandi sat fundinn undir lið 1 og 2.

1.Ársreikningur Hafnasjóðs 2019

Málsnúmer 202005029Vakta málsnúmer

Á 67. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi ársreikning hafnasjóðs 2019 og vísar honum til afgreiðslu í sveitarstjórn.
Til máls tóku: Kristján, Silja, Bergur og Hjálmar.

Meirihluti sveitarstjórnar leggur fram eftirfarandi bókun:
Ársreikningur Hafnasjóðs Norðurþing fyrir árið 2019 sýnir glögglega að enn er þörf á frekari umsvifum um höfnina til að sjálfbærni í rekstrinum verði náð. Niðurstaða ársins er örlítið undir væntingum m.v. áætlun, sem helgast helst af minni framleiðslu kísilmálms á Bakka. Ársreikningurinn er að öðru leyti nokkuð til samræmis við áætlanir ársins. Helsta frávik frá áætlun er að annar rekstrarkostnaður jókst umfram áætlun vegna þess að minna af viðhaldsframkvæmdum komu til eignfærslu en áætlað hafði verið, heldur voru þær kostnaðarfærðar í staðinn. Sömuleiðis var jákvætt að komur skemmtiferðaskipa voru fleiri en áætlað var og komu að hluta upp á móti lækkun annara tekna. Niðurstaða ársins kallar á aðhald utan um rekstur hafnasjóðs næstu misseri því ljóst er að sú áætlun sem gerð var fyrir árið 2020 mun breytast verulega vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem heimsfaraldur covid-19 er að hafa á allan rekstur.


Ársreikningur hafnasjóðs 2019 er samþykktur samhljóða.

2.Ársreikningur Norðurþings 2019

Málsnúmer 202003114Vakta málsnúmer

Á 327. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað:

Ragnar Jóhann Jónsson endurskoðandi fór yfir ársreikning sveitarfélagsins.
Byggðarráð þakkar Ragnari Jóhanni Jónssyni fyrir komuna á fund byggðarráðs og vísar ársreikningi Norðurþings til síðari umræðu í sveitarstjórn.
Til mál tóku: Kristján, Helena, Bergur og Hjálmar.

Helena leggur fram eftirfarandi bókun f.h. meirihluta sveitarstjórnar;
Ársreikningur Norðurþings fyrir árið 2019 ber þess vitni að ásættanlegri niðurstöðu hefur verið náð á rekstrarárinu, enda rekstrarniðurstaðan í megindráttum til samræmis við fjárhagsáætlun ársins. Gert var ráð fyrir samdrætti m.v. fyrra ár. Auknar tekjur síðustu ára hafa gert okkur kleift að fara í mikilvægar framkvæmdir án mikillar lántöku. Samfara uppbyggingu samfélagsins vegna iðnaðar á Bakka hafa útgjöld aukist til ýmissa málaflokka og laun og launtengd gjöld hækkað þónokkuð skv. kjarasamningum og afturvirkum leiðréttingum vegna þeirra, enda þótt stöðugildum hafi ekki fjölgað nema lítillega. Niðurstaða ársins dregur fram þá glímu sem við stöndum frammi fyrir næstu misseri að halda rekstrarjafnvægi og stífu haldi um taumana, ekki hvað síst í ljósi þeirra neikvæðu áhrifa sem heimsfaraldur covid-19 er að hafa á hagkerfið allt.

Minnihluti sveitarstjórnar leggur fram eftirfarandi bókun:
Það er reglulega ánægjulegt að sjá að áætlanir síðustu áratuga um auknar tekjur hafa gengið eftir. Ástæður tekjuaukningarinnar eru m.a. uppbygging í orkufrekum iðnaði, ferðaþjónusta og fleiri greinum atvinnulífsins. Þessi uppbygging hefur gjörbreytt tekjumyndun í samstæðu sveitarfélagsins og haft jákvæð áhrif á íbúaþróun.
Það hvetur okkur til að huga áfram að atvinnuuppbyggingu og nýsköpun til að standa undir velferðinni.
Rekstrarumhverfi sveitarfélaga hefur verið hagstætt á undanförnum árum; hækkun á fasteignaverði, lágir vextir og lág verðbólga.
Ársreikningur 2019 sýnir hinsvegar að aðhald hefur skort í rekstri sveitarfélagins; rekstrarkostnaður hefur hækkað, gengið á handbært fé og stefnir í lántöku til að mæta rekstri. Kornhlaðan er tóm. Það var vitað mál að tekjur myndu dragast saman þegar framkvæmdatímabili og uppbyggingu í orkufrekum iðnaði lyki. Það sést í fyrri áætlunum sveitarfélagsins.
Það fer því illa saman að tekjur eru mjög miklar, skortur á aðhaldi í rekstri og á eftirliti með framkvæmdakostnaði. Niðurskurður sem fram kemur í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 er skýrt merki um þetta. En skatttekjur sveitasjóðs hafa aukist um 780 milljónir króna frá árinu 2014 eða um 44 prósent sem er m.a. uppskera atvinnuuppbyggingar. Veltufé frá rekstri sveitasjóðs var um 685 milljónir króna árið 2018 en er nú um 375 milljónir króna. Áætlun fyrir árið 2019 gerði ráð fyrir 482 milljónum króna eða um 24 prósent undir áætlun. Launakostnaður sveitasjóðs hefur hækkað um 13 prósent milli ára og er meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Gengið hefur á handbært fé samstæðunnar til að fóðra reksturinn þrátt fyrir að tekjur séu hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Handbært fé frá rekstri er um helmingi lægra en árið áður og um 23% undir áætlun.
Það er ástæða til að hafa áhyggjur af grunnrekstri sveitarfélagsins. Það þarf að sýna ráðdeild og aga í rekstri sveitarfélagsins til að verja grunnþjónustu þess sem er lögbundið hlutverk kjörinna fulltrúa. Eins og segir í 1. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga, 138/2011: "Sveitarstjórn ber að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum".


Ársreikningur Norðurþings fyrir árið 2019 er samþykktur samhljóða.

3.Heimild til lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga

Málsnúmer 202005065Vakta málsnúmer

Á 327. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað:

Í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru vegna COVID-19 og þess tekjufalls sem fyrirsjáanlegt er í rekstri sveitarfélagsins á næstu mánuðum leggur byggðarráð til að Eignasjóður taki 200 milljón króna lán til 15 ára hjá Lánasjóði sveitarfélaga með fljótandi óverðtryggðum vöxtum (REIBOR 0,50% álag)sem eru í dag 3,06% og uppgreiðsluheimild. Lánið er tekið vegna framkvæmda á árunum 2018 - 2019 sem fjármagnaðar voru af handbæru fé.
Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja lántökuheimildina og vísar málinu til afgreiðslu í sveitarstjórn.
Til máls tóku: Helena og Hjálmar.

Helena leggur fram eftirfarandi tillögu:
Sveitarstjórn Norðurþings samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi þann 19. maí 2020 að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól 200.000.000 kr. til 15 ára, með lokagjalddaga þann 5. ágúst 2035, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum.
Sveitarstjórn samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Er lánið tekið til að mæta kostnaði við byggingu slökkvistöðvar og annarra framkvæmda á vegum sveitarfélagsins sem hafa almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Kristjáni Þór Magnússyni kt. 120279-4599 sveitarstjóra, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Norðurþings að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

Tillagan er samþykkt samhljóða.

4.Viðauki við fjárhagsáætlun Norðurþings 2020 - Umhverfismál

Málsnúmer 202005062Vakta málsnúmer

Á 327. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað:

Byggðarráð samþykkir framlagðan viðauka sem gerir ráð fyrir 10.271.441 króna viðbótarframlagi til málaflokks 11 - Umhverfismál vegna átaksverkefna í atvinnumálum í tengslum við COVID-19, sem mætt verður með lækkun á handbæru fé. Byggðarráð vísar viðaukanum til samþykktar í sveitarstjórn.
Til máls tóku: Silja, Bergur og Hafrún.

Silja leggur fram eftirfarandi bókun f.h. meirihluta sveitarstjórnar:
Aðstæður í samfélaginu kalla á viðbrögð Norðurþings varðandi störf til handa ungu fólki og er þessi aðgerð liður í því að koma til móts við þá þörf. Einnig í leiðinni að hlúa að útivistarsvæðum í Norðurþingi. Ekki er um að ræða sumarafleysingar heldur sérstök störf til átaks á umhverfissviði sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkir viðaukann samhljóða.

5.Viðauki við fjárhagsáætlun Hafnasjóðs 2020

Málsnúmer 202005060Vakta málsnúmer

Á 327. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað:

Byggðarráð samþykkir framlagðan viðauka með þeirri breytingu að taka inn lækkun á kostnaði upp á 15 milljónir. Samþykktur viðauki gerir því ráð fyrir 52.579.815 króna viðbótarframlagi til Hafnasjóðs vegna tekjufalls sjóðsins í tengslum við COVID-19, sem mætt verður með lækkun á handbæru fé. Byggðarráð vísar viðaukanum til samþykktar í sveitarstjórn.
Til máls tóku: Silja og Bergur.

Helena og Bergur óska bókað:
Ekki er um að ræða lækkun á handbæru fé hafnasjóðs eins og skilja má á inngangi heldur hækkun á viðskiptastöðu hafnasjóðs við aðalsjóð. A hluti mun styðja við hafnasjóð og tryggja rekstrarhæfi sjóðsins með þessari aðgerð.


Silja leggur fram eftirfarandi bókun f.h. meirihluta sveitarstjórnar:
Vegna COVID-19 er fyrirsjáanlegt að tekjur hafnarinnar muni verða umtalsvert lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Á móti því kemur að hluta að kostnaður við rekstur hafnarinnar verður að einhverju leyti lægri þar sem minni umsvif gera ekki kröfu um jafn mikla þjónustu af hálfu hafnarinnar s.s. vegna lóðsbáts.

Sveitarstjórn samþykkir viðaukann samhljóða.


6.Atvinnuátak Norðurþings sumar 2020 - viðauki

Málsnúmer 202004072Vakta málsnúmer

Á 327. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað:

Byggðarráð samþykkir framlagðan viðauka sem gerir ráð fyrir 21.600.000 króna viðbótarframlagi til málaflokks 06 - Æskulýðs- og íþróttamál vegna átaksverkefna í atvinnumálum í tengslum við COVID-19, sem mætt verður með lækkun á handbæru fé. Byggðarráð vísar viðaukanum til samþykktar í sveitarstjórn.
Til máls tóku: Heiðbjört, Hjálmar, Bergur og Kolbrún Ada.

Heiðbjört leggur fram eftirfarandi bókun f.h. meirihluta sveitarstjórnar:
Ljóst er að framboð á sumarstörfum á almennum vinnumarkaði fyrir ungmenni í sveitarfélaginu verður ekki með sama hætti í ár og verið hefur. Hrun í ferðaþjónustu á landinu vegna covid-19 og samdráttur í öðrum atvinnugreinum orsaka þá stöðu sem uppi er. Sú aðgerð að bjóða uppá 10 ný sumarstörf fyrir 16-17 ára innan málaflokks 06 kemur til móts við þá miklu þörf fyrir önnur störf en þau sem að ofan er lýst. Þessi aðgerð mun m.a. verða til þess að boðið verður uppá frístund allan daginn í sumar fyrir yngsta grunnskólahópinn

Bergur óskar bókað:
Þessi tillaga og tillögur í fyrri málum vegna viðauka komu frá aðgerðarhóp Norðurþings.

Sveitarstjórn samþykkir viðaukann samhljóða.

7.Gjaldskrá tjaldsvæðis á Húsavík 2020

Málsnúmer 202005001Vakta málsnúmer

Á 66. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til eftirfarandi gjaldskrá fyrir árið 2020 og vísar til samþykktar í sveitarstjórn.
Gjaldskrá mun ekki hækka á milli ára, en felldur verður út liður varðandi sérstakt gjald ellilífeyris- og örorkuþega.

Gisting 18 ára og eldri: 1750.- kr. á mann/ fyrstu nóttina
Rafmagn: 750.- kr.
Þvottur: 550.- kr

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur einnig til að gjald fyrir gistinótt nr. tvö verði á 50% afslætti og frítt eftir það að undanskyldu gjaldi vegna rafmagns og fyrir þvottaaðstöðu sem verður óbreytt.
Til máls tóku: Hjálmar, Kristján, Helena, Kolbrún Ada, Silja og Hafrún.


Undirrituð leggja til að gjaldskrár fyrir þessi þrjú tjaldsvæði innan sveitarfélagsins verði sameinaðar í eina og að rekstur tjaldsvæðanna verði hafður undir sama ráði, fjölskylduráði.

Enn fremur er lagt til að gjaldskráin verði eftirfarandi:

Fullorðnir: 1.500 kr. nóttin
18 ára og yngri: frítt
Rafmagn: 750 kr. nóttin
Þvottur: 700 kr.

Bergur Elías Ágústsson, Hafrún Olgeirsdóttir, Hjálmar Bogi Hafliðason og Hrund Ásgeirsdóttir.

Tillagan er samþykkt samhljóða.


Kolbrún Ada leggur fram eftirfarandi viðbótartillögu:
Lagt er til að gjald fyrir gistinótt nr. tvö verði á 50% afslætti og þriðja nóttin verði frí að undanskyldu gjaldi vegna rafmagns og gjalds fyrir þvottaaðstöðu. Kjósi gestir að dvelja fleiri nætur á tjaldstæðinu er rukkað aftur fyrir fjórðu, fimmtu og sjöttu gistinætur með sama hætti og fyrstu þrjár.

Tillagan er samþykkt samhljóða.

8.Gjaldskrá tjaldsvæða Kópasker og Raufarhöfn

Málsnúmer 202005058Vakta málsnúmer

Á 63. fundi fjölskylduráðs var eftirfarandi bókað:

Fjölskylduráð samþykkir eftirfarandi gjaldskrá fyrir tjaldsvæðin á Kópaskeri og Raufarhöfn og vísar til samþykktar í sveitarstjórn.

Fullorðnir : 1.200 kr nóttin
18 ára og yngri (í fylgd með fullorðnum): frítt
Ellilífeyris og örorkuþegar : 1.000 kr
rafmagn: 800 kr (nóttin)
þvottaaðstaða: 800kr
Umræða um mál nr. 8 var tekin samhliða máli nr. 7.

9.Norðurþing, kosning í nefndir til eins árs, fjögurra ára og tilnefningar á aðalfundi 2018-2022

Málsnúmer 201806044Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur að samræma fulltrúa fyrir hönd Norðurþings í fulltrúaráðum Héraðsnefndar, Atvinnuþróunar félagsins og Menningarmiðstöð Þingeyinga.

Til máls tók: Kolbrún Ada.

Kolbrún Ada leggur fram eftirfarandi tillögu:
Aðalmaður í fulltrúaráði Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og Menningarmiðstöðvar Þingeyinga verði Kristján Þór Magnússon.
Varamaður í fulltrúaráði Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og Menningarmiðstöðvar Þingeyinga verði Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir.


Tillagan er samþykkt samhljóða.

10.Tilnefning í stjórn Þekkingarnets þingeyinga

Málsnúmer 202005020Vakta málsnúmer

Á 63. fundi fjölskylduráðs var eftirfarandi bókað:

Fjölskylduráð tilnefnir Jón Höskuldsson fræðslufulltrúa Norðurþings sem fulltrúa sveitarfélagsins í stjórn Þekkingarnets Þingeyinga og vísar málinu til staðfestingar í sveitarstjórn.
Helena Eydís vék af fundi undir þessum lið fundargerðarinnar.

Til máls tók: Hjálmar.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu fjölskylduráðs.

11.Skipun þingfulltrúa á þing SSNE 2020

Málsnúmer 202005077Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur að skipa fimm þingfulltrúa og jafn marga varamenn á þing SSNE í samræmi við 5. og 6. grein samþykkta SSNE.
Til máls tók: Kolbrún Ada.

Kolbrún Ada leggur fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að Kristján Þór Magnússon, Helena Eydís Ingólfsdóttir, Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, Hjálmar Bogi Hafliðason og Hafrún Olgeirsdóttir verði þingfulltrúar Norðurþings á þingum SSNE.
Til vara: Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir, Birna Ásgeirsdóttir, Berglind Hauksdóttir, Bergur Elías Ágústsson og Hrund Ásgeirsdóttir.

Tillagan er samþykkt samhljóða.

12.Umsókn um breytingar á lóð við Hafnarstétt 7

Málsnúmer 202005002Vakta málsnúmer

Lóðarhafar Hafnarstéttar 7 óska sameiginlega eftir:
1. Nýjum lóðarleigusamning á grunni samkomulags við lóðarhafa að Garðarsbraut 6. Þar er horft til þess að lóð Hafnarstéttar 7 stækki inn á núverandi lóð Garðarsbrautar 6 sem nemur um 22 m².
2. Nýtingarhlutfall lóðarinnar að Hafnarstétt 7 verði hækkað í 1,5.
3. Hámarksbyggingarmagn lóðar verði aukið í 1.015 m².
Lóðarhafar lýsa sig reiðubúna til viðræðna um að útbúa svalir utan á húsið til að bæta aðgengi allra að öðrum húsum við Hafnarstétt.

Á 66. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað:
Skipulags- og framkvæmdaráð telur að lítilsháttar hliðrun á mörkum lóðanna að Hafnarstétt 7 og Garðarsbraut 6 og fyrirhuguð bygging þar muni lítil sem engin áhrif hafa á aðra hagsmunaðila. Ráðið felur því skipulags- og byggingarfulltrúa að láta útbúa lóðarblöð fyrir báðar lóðirnar til samræmis við deiliskipulag og með þeim frávikum sem lóðarhafar hafa samið um. Ráðið leggur til við sveitarstjórn að hún samþykki ný og þrengri lóðarmörk fyrir Garðarsbraut 6 og þar með stækkun lóðar Hafnarstéttar 7.
Skipulags- og framkvæmdaráð tekur vel í hugmynd að hækkun nýtingarhlutfalls Hafnarstéttar 7. Ákvörðun þar að lútandi þarf hinsvegar að taka við endurskoðun deiliskipulags miðhafnarsvæðis sem fyrirhuguð er.
Helena Eydís og Silja véku af fundi undir þessum lið fundargerðarinnar.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs.

13.Ósk um úthlutun lóðar að Stórargarði 12 undir íbúðakjarna fyrir fatlaða

Málsnúmer 202005064Vakta málsnúmer

Á 67. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að lóðinni verði úthlutað til Norðurþings og síðar afsalað til umrædds félags þegar það hefur verið stofnað.
Til máls tók: Kristján

Kristján leggur fram eftirfarandi bókun:
Ánægjulegt er að sjá að skipulags- og framkvæmdaráð leggi til að lóð undir fyrirhugaða uppbyggingu íbúðakjarna fyrir fatlaða verið úthlutað. Mikil þörf er fyrir íbúðaúrræði sem þetta fyrir fatlaða einstaklinga í sveitarfélaginu og mun skipta sköpum fyrir búsetuöryggi þeirra og fjölskyldna þeirra í sveitarfélaginu. Komi til úthlutunar stofnframlags Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er ljóst að framkvæmdin verður í samræmi við hvatningu ríkisstjórnar Íslands til sveitarfélaga um uppbyggingu þessara úrræða á landsbyggðinni. Gert var ráð fyrir stofnframlagi sveitarfélagsins til framkvæmdarinnar á fjárhagsáætlun ársins 2020 og fáist mótframlag ríkisins ætti ekkert að vera að vanbúnaði að hefjast handa við framkvæmdina á þessu ári.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs.

14.Ósk um samþykki fyrir stofnun lóðar undir frístundahús út úr Sandvík

Málsnúmer 202005044Vakta málsnúmer

Á 67. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að stofnun lóðarinnar verði samþykkt.
Kristinn J. Lund sat hjá undir þessum lið.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs.

15.Björgunarsveitin Garðar óskar eftir stækkun lóðar og byggingarleyfi.

Málsnúmer 202004078Vakta málsnúmer

Á 65. fundi skipulags- og frakmvæmdaráðs var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að lóðarhafa verði úthlutað lóð til samræmis við gildandi deiliskipulag. Ennfremur leggur ráðið til við sveitarstjórn að gatnagerðargjöld vegna stækkunarinnar verði felld niður. Skipulags- og byggingarfulltrúa verði heimilað að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu innan ramma gildandi deiliskipulags þegar fullnægjandi gögnum þar að lútandi hefur verið skilað inn. Framlögð teikning gengur út fyrir lóðarmörk skv. gildandi deiliskipulagi.
Helena Eydís og Silja véku af fundi undir þessum lið fundargerðarinnar.

Til máls tók: Hjálmar.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs.

16.Samningur við Kolviðarsjóð um skógaræktarland á Ærvíkurhöfða

Málsnúmer 201804105Vakta málsnúmer

Á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 28. apríl var eftirfarandi bókað:
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að gengið verði til samninga við Kolviðarsjóð á grunni fyrirliggjandi samningsdraga. Skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að stofna sjálfstæða landspildu á grundvelli hnitsetta uppdráttarins.
Til máls tók: Kolbrún Ada.

Kolbrún Ada leggur fram eftirfarandi bókun:
Það er jákvætt skref og í anda viðspyrnu í loftslagsmálum að hluti lands sveitarfélagsins í Saltvík, sem bæði er rýrt og lítið nýtt í dag, verði nýtt til skógræktar. Troðningar og gönguleiðir munu verða gerðir um svæðið þegar fram líður og gert ráð fyrir að þarna verði fólkvangur. Kolviður mun semja við aðila á svæðinu um að planta trjánum og því skapar framtakið tekjur fyrir svæðið.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs.

17.Ósk um aðkomu að endurbótum hússins Breiðabliks á Raufarhöfn

Málsnúmer 202002063Vakta málsnúmer

Til staðfestingar í sveitarstjórn liggur þríhliða samningur milli Norðurþings, Félags eldri borgara á Raufarhöfn og Hólmsteins Helgasonar ehf um eignarhald, viðhald og framtíðarafnot hússins Breiðabliks á Raufarhöfn
Til máls tóku: Kristján, Hjálmar og Hafrún.

Kristján Þór óskar bókað:
Það er jákvætt að náðst hafi samkomulag milli Norðurþings við annars vegar Félag eldri borgara á Raufarhöfn og hins vegar Hólmstein Helgason ehf. um eignarhald og endurbætur á húsinu Breiðabliki á Raufarhöfn, félagsaðstöðu eldri borgara. Með samningnum eignast Félag eldri borgara á Raufarhöfn húsið en Norðurþing mun á árunum 2020 og 2021 leggja alls fjórar milljónir til endurbótanna auk þess að gera rekstrarsamning við Félag eldri borgara á Raufarhöfn til ársins 2026. Heildarkostnaður við fyrirhugaðar endurbætur hússins er áætlaður á bilinu 10-12 milljónir og mun Hólmsteinn Helgason ehf. taka að sér umsjón með endurbótunum. Gert er ráð fyrir því að framvinda og uppgjör verkefnisins verði undir eftirliti skipulags- og framkvæmdaráðs.

Sveitarstjórn staðfestir samninginn samhljóða.

18.Þjónustusamningur Orkuveitu Húsavíkur og Norðurþings 2020

Málsnúmer 201911045Vakta málsnúmer

Á 325. fundi byggðarráðs voru lögð fram drög að þjónustusamningi milli Orkuveitu Húsavíkur ohf. og Norðurþings sem tekin voru til umræðu á fundi stjórnar Orkuveitu Húsavíkur ohf. þann 12. mars sl. og samþykkt af meirihluta stjórnar. Bókun byggðarráðs var eftirfarandi: "Byggðarráð samþykkir með atkvæðum Helenu og Silju að fela sveitarstjóra að undirrita samninginn og vísa honum til staðfestingar í sveitarstjórn. Bergur Elías greiðir atkvæði gegn samningnum."
Til máls tóku: Bergur, Helena og Hafrún.

Bergur óskar bókað:
Ég get ekki með nokkru móti samþykkt samning sem ekki kveður skýrt á um fyrir hvað sé verið að greiða.

Helena leggur fram eftirfarandi bókun:
Með samningnum tekur Norðurþing að sér starfsmannahald Orkuveitu Húsavíkur ohf, rekstur veitukerfa, skrifstofuhald og fjármál og að fylgja eftir þeim formsatriðum sem nauðsynleg eru í rekstri Orkuveitunnar. Ásamt því að sjá um innheimtu vatns- og fráveitugjalda fyrir Orkuveitu Húsavíkur ohf. Við gerð samningsins var lögð áhersla á að samningurinn fæli í sér hagræði fyrir báða aðila.

Sveitarstjórn staðfestir samninginn með atkvæðum Heiðbjartar, Helenu, Kolbrúnar Ödu, Kristjáns og Silju.
Bergur, Hjálmar og Hrund greiða atkvæði gegn samningnum.
Hafrún situr hjá.

19.Framlenging á samningi við Húsavíkurstofu

Málsnúmer 202004070Vakta málsnúmer

Á 323. fundi byggðarráðs var samþykkt tillaga aðgerðahóps Norðurþings vegna COVID-19 um að samningur við Húsavíkurstofu verði framlengdur um eitt ár. Á 325. fundi byggðarráðs var samkomulag um framlenginuna samþykkt vísað til staðfestingar í sveitarstjórn.
Sveitarstjórn staðfestir samninginn samhljóða.

20.Fjöldasamkomur í Norðurþingi sumarið 2020

Málsnúmer 202004054Vakta málsnúmer

Á 63. fundi fjölskylduráðs var eftirfarandi bókað:

Fjölskylduráð samþykkir eftirfarandi bókun sem vísað er til sveitarstjórnar.

Í ljósi takmarkana þeirra sem samkomubannið felur í sér leggur fjölskylduráð eftirfarandi til við sveitarstjórn. Vegna óvissu um þróun mála er snúa að heimsfaraldri kórónuveirunnar er lagt til að Norðurþing standi ekki fyrir formlegum hátíðarhöldum vegna Mærudaga sumarið 2020. Ekki verði boðið upp á formlega dagskrá í nafni hátíðarinnar, en íbúar allir engu að síður hvattir til að skreyta bæinn og gera sér glaðan dag með fjölskyldu og vinum hér á svæðinu helgina 25.-26. júlí.
Í ljósi þess verður ekki samið við verkefnastjóra um framkvæmd hátíðarinnar. Fjölmenningarfulltrúa og íþrótta- og tómstundafulltrúa falið að semja um verklok við samningsaðila.
Til máls tóku: Kolbrún Ada, Kristján, Hjálmar, Hafrún, Heiðbjört og Helena.

Tillaga fjölskylduráðs er samþykkt með atkvæðum Helenu, Heiðbjartar, Kolbrúnar Ödu, Kristjáns og Silju.
Bergur, Hafrún, Hjálmar, og Hrund greiddu atkvæði á móti tillögu fjölskylduráðs.


Undirrituð leggja til að ákvörðun sveitarstjórnar standi óbreytt síðan á aprílfundi sem felur í sér að hátíðir og viðburðir verði með öðru móti enda í óþekktum aðstæðum. Leita verði óhefðbundinna leiða til að gera sér dagamun þrátt fyrir takmarkanir.
Bergur Elías Ágústson, Hafrún Olgeirsdóttir, Hjálmar Bogi Hafliðason og Hrund Ásgeirsdóttir.
Tillögunni er hafnað með atkvæðum Helenu, Heiðbjartar, Kolbrúnar Ödu, Kristjáns og Silju.
Bergur, Hafrún, Hjálmar og Hrund greiddu atkvæði með tillögunni.


Kristján Þór leggur fram eftirfarandi tillögu f.h. meirihluta sveitarstjórnar: Undirrituð leggja til að fjölskylduráð útfæri stutta dagskrá í tilefni af þjóðhátíðardeginum 17. júní þar sem fram fari hátíðarávarp, ávarp fjallkonu, tilnefning listamanns Norðurþings árið 2020 og tónlistaratriði. Ekki verður boðið sérstaklega til viðburðarins heldur verði honum streymt gegnum vefinn á heimasíðu sveitarfélagsins.
Tillaga Kristjáns er samþykkt með atkvæðum Bergs, Hafrúnar, Heiðbjartar, Helenu, Hrundar, Kolbrúnar Ödu, Kristjáns og Silju.
Hjálmar situr hjá.

21.Uppbyggingarsamningur við Golfklúbb Húsavíkur

Málsnúmer 202005079Vakta málsnúmer

Helena Eydís óskar eftir að uppbyggingarsamningur við Golfklúbb Húsavíkur verði settur á dagskrá sveitarstjórnar.
Hjálmar vék af fundi undir þessum lið fundargerðarinnar.

Til máls tóku: Helena, Hafrún, Bergur og Kristján.

Helena leggur til að forsvarsmenn Golfklúbbsins verði boðaðir á fund byggðarráðs til viðræðna um hvert framhald uppbyggingasamningsins verður.
Tillaga Helenu er samþykkt samhljóða.

Hafrún Olgeirsdóttir leggur til að fjölskylduráð boði forsvarsmenn Golfklúbbs Húsavíkur til fundar til að ræða aðstöðu undir golfhermi eins og kom fram í erindi frá Golfklúbbnum sem tekið var fyrir á 61. fundi fjölskylduráðs 24. apríl sl.
Tillaga Hafrúnar er samþykkt samhljóða.

22.Ósk eftir minnisblaði um mál frá minnihlutafulltrúum sem hafa verið send inn og/eða samþykkt

Málsnúmer 202003054Vakta málsnúmer

Á 102. fundi sveitarstjórnar var eftirfarandi bókað:

Sveitarstjóra falið að taka saman minnisblað og leggja fyrir næsta sveitarstjórnarfund.
Til máls tóku: Hjálmar, Silja, Hafrún og Kolbrún Ada.

Lagt fram.

23.Aðgerðahópur Norðurþings til að fást við efnahagsmál vegna Covid-19

Málsnúmer 202003079Vakta málsnúmer

Kristján Þór óskar umræðum um starf hópsins og ákvarðanir sem byggja á tillögum hópsins hingað til.
Til máls tóku: Kristján, Bergur, Kolbrún Ada og Helena.

Kristján Þór leggur fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að skipulags- og framkvæmdaráð endurskoði afstöðu sína til frestunar á bryggju- og lestargjöldum smærri báta og skipa. Horft verði til þess að fyrirtæki sem hafi nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda hafi sömuleiðis tækifæri til að sækja um vaxtalausan frest á greiðslum þessara gjalda á meðan fyrirtækin glíma við forsendubrest í rekstri sínum, til samræmis við tillögu aðgerðarhóps sveitarfélagsins vegna covid-19.

Tillagan er samþykkt samhljóða.

24.Skýrsla sveitarstjóra

Málsnúmer 201605083Vakta málsnúmer

Kristján Þór fer yfir verkefni sveitarfélagsins síðastliðin mánuð.
Til máls tók: Kristján.


Lagt fram.

25.Byggðarráð Norðurþings - 325

Málsnúmer 2004009FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 325. fundar byggðarráðs.
Til máls tók undir lið 3 "Fundir fastanefnda Norðurþings eftir 4. maí 2020": Helena.

Til máls tók undir lið 11 "Styrkur til Heimskautsgerðisins vegan auka framlags í Framkvæmdasjóð ferðamanna í tengslum við COVID-19": Helena.

Til máls tóku undir lið 7 "Byggðakvóti í Norðurþingi": Bergur og Kristján.

Aðrir liðir fundargerðarinnar lagðir fram til kynningar.

26.Byggðarráð Norðurþings - 326

Málsnúmer 2005001FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 326. fundar byggðarráðs.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

27.Byggðarráð Norðurþings - 327

Málsnúmer 2005004FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 327. fundar byggðarráðs.
Til máls tóku undir lið 6 "Bréf vegna útboðs á sorphirðu 2020": Hjálmar og Kristján.

Aðrir liðir fundargerðarinnar lagðir fram til kynningar.

28.Fjölskylduráð - 61

Málsnúmer 2004006FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 61. fundar fjölskylduráðs.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

29.Fjölskylduráð - 62

Málsnúmer 2004014FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 62. fundar fjölskylduráðs.
Til máls tóku undir lið 6 "Rekstur mötuneyta leik- og grunnskóla á Húsavík": Bergur, Kristján, Hjálmar og Heiðbjört.

Aðrir liðir fundargerðarinnar lagðir fram til kynningar.

30.Fjölskylduráð - 63

Málsnúmer 2005003FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 63. fundar fjölskylduráðs.
Til máls tóku undir lið 7 "Bílabíó á Húsavík": Helena og Hjálmar.

Helena leggur fram eftirfarandi bókun:
Helenu finnst að sveitarstjóri eigi að kanna hvort unnt sé að sýna í bílabíó myndina Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga sem frumsýnd verður á Netflix þann 26. júní næstkomandi. Húsavík er hluti af sögusviði myndarinnar og margir heimamenn tóku þátt í þeim tökum sem hér fóru fram.

Til máls tóku undir lið 4 "Grænuvellir - Skóladagatal 2020-2021": Hafrún, Heiðbjört og Helena.

Hafrún leggur fram eftirfarandi bókun:
Samkvæmt þessu dagatali verður starfsmannafundum fækkað og þeir lengdir en tímasetningar breytast líka. Starfsmannafundirnir verða á mánudagsmorgnum frá kl. 08:00-12:00 í stað þess að vera á milli kl. 14:00-16:00 á föstudögum. Hvaða sjónarmið voru á bakvið þessa ákvörðun? Ef það eru hagræðingar sjónarmið myndi ég gjarnan vilja vita hvað felst í þeirri hagræðingu, hvort sem það eru fjárhagsleg sjónarmið eða ekki.


Aðrir liðir fundargerðarinnar lagðir fram til kynningar.

31.Skipulags- og framkvæmdaráð - 65

Málsnúmer 2004008FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 65. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

32.Skipulags- og framkvæmdaráð - 66

Málsnúmer 2004013FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 66. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

33.Skipulags- og framkvæmdaráð - 67

Málsnúmer 2005002FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 67. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

34.Orkuveita Húsavíkur ohf - 205

Málsnúmer 2004010FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 205. fundar Orkuveitu Húsavíkur ohf.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

35.Orkuveita Húsavíkur ohf - 206

Málsnúmer 2004011FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 206. fundar Orkuveitu Húsavíkur ohf.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

36.Orkuveita Húsavíkur ohf - 207

Málsnúmer 2004012FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 207. fundar Orkuveitu Húsavíkur ohf.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 20:35.