Sveitarstjórnir Skagafjarðar og Norðurþings hafa sameiginlega óskað eftir fundi með heilbrigðisráðherra og
fjárlaganefnd Alþings til að ræða niðurstöður lögfræðiálits sem Dögg Pálsdóttir hrl. hefur unnið fyrir
sveitarstjórnirnar. Álitið fjallar um hvort boðaður niðurskurður í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011 á
fjárveitingum til Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki og Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga standist stjórnarskrá, lög um
heilbrigðisþjónustu, lög um réttindi sjúklinga, önnur lagaákvæði og skuldbindingar Íslands skv. alþjóðlegum
mannréttindaákvæðum, vegna víðtækra áhrifa niðurskurðarins á rétt manna á starfssvæðum stofnananna til
heilsu.
Sveitarfélagið Skagafjörður óskaði 4. október sl. skriflega eftir fundi með ráðherranum til að
ræða boðaðan niðurskurð á fjárveitingum til Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki, en þeirri beiðni hefur ekki verið
svarað. Samskonar beiðni frá Sveitarfélaginu Norðurþingi liggur jafnframt fyrir í heilbrigðisráðuneytinu.