Fara í efni

Fréttir

Listahátíð yngri barna á Húsavík tókst mjög vel

Aðsókn að sýningum og viðburðum Listahátíðar yngri barna á Húsavík fór fram úr björtustu vonum. Samanlagt mun nálægt 1000 manns hafa sótt hátíðina. Samstarf skólanna við Safnahúsið og bókasafnið tókst sérstaklega vel og þeim til sóma er stýrðu því verki.
24.03.2004
Tilkynningar

Litahátíð barna 2004

Mikið fjölmenni var við opnun listahátíðar barna í Safnahúsinu í dag, laugardaginn 20.mars kl:13:00. Bæjarstjórinn, Reinhard Reynisson flutti ávarp, listamenn úr Leikskólanum í Bjarnahúsi fluttu glæsilegt atriði og yngri kór Borgarhólsskóla söng. Sýningin er opin í dag og á morgun,sunnudag, bæði í Safnahúsinu og Borgarhólsskóla.
20.03.2004
Tilkynningar

Pétur mikli kominn til Húsavíkur

Tækjabúnaður Sæþórs ehf. sem sér um dýpkun og gröft á stálþilsskurði vegna hafnarframkvæmda við Bökugarð er kominn á staðinn. Um er að ræða gröfupramma og efnisprammann Pétur mikla.Framkvæmdir við verkið hefjast á næstu dögum, en samkvæmt verksamningi skal þeim lokið 1. apríl n.k.
16.03.2004
Tilkynningar

Úthlutun styrkja úr Lista og menningarsjóði Húsavíkurbæjar

Fyrri úthlutun ársins úr sjóðnum fór fram á fundi fræðslunefndar 2. mars sl. Alls bárust umsóknir vegna 11 verkefna. Úthlutað var úr sjóðnum til 9 verkefna, alls kr. 640.000. Á sama fundi voru teknar ákvarðanir um ráðstöfun á fjármunum sjóðsins að frumkvæði stjórnar, endurnýjaður verður samningur við Tónlistarskóla Húsavíkur vegna tónleikahalds. Samþykkt var að auglýsa eftir framkvæmdaaðila að tónlistarveislu / sumartónleikum.
12.03.2004
Tilkynningar

Mærudagar 2004

Markaðsráð Húsavíkur og nágrennis mun annast framkvæmd og umsjón Mærudaga árið 2004. Á fundi fræðslunefndar 2. mars var samþykkt að fela MarkHús umsjón og framkvæmd Mærudaga árið 2004. Þetta er annað árið sem MarkHús mun annast framkvæmd þessarra bæjarhátiðar sem nú hefur fest sig í sessi hér á Húsavík. Hátíðin sumarið 2003 tókst með miklum ágætum að vanda og má vænta enn glæstrar hátíðar í ár. Mærudagar 2004 hafa verið ákveðnir 6. til 8. ágúst.
12.03.2004
Tilkynningar

Listahátíð yngri barna á Húsavík

Helgina 20. - 21. mars verður haldin Listahátíð yngri barna í Húsavíkurbæ. Fjölbreytt dagskrá verður báða dagana, en þema hátíðarinnar en umhverfið okkar. Hátíðin fer fram í sal Safnahússins á Húsavík og í sal Borgarhólsskóla og hefst kl: 13:00 á laugardag.
12.03.2004
Tilkynningar

Niðurstöður íbúaþings kynntar

Á fundi, sem haldinn var í gærkvöldi þann 11.mars 2004, voru helstu niðurstöður íbúaþings kynntar. Fundarmenn lýstu ánægju sinni með vel heppnað íbúaþing og því hve bæjarbúar hefðu verið áhugasamir um framtíð Húsavíkurbæjar. Fjölmargar athyglisverðar hugmyndir komu fram á þinginu.
12.03.2004
Tilkynningar

Verkefnissamningur um rafrænt samfélag undirritaður

Í dag var undirritaður verkefnissamningur milli Byggðastofnunar annars vegar og Aðaldælahrepps, Húsavíkurbæjar og Þingeyjarsveitar hins vegar, um byggðaverkefnið rafrænt samfélag. Um er að ræða samstarfsverkefni sveitarfélaganna sem valið var í samkeppni stjórnvalda á síðasta ári. Heiti verkefnisins er Skjálfandi í faðmi þekkingar – Rafrænt samfélag við Skjálfanda og eru einkunnarorð þess, Virkjum alla!. Vísa þau til megin markmiðs verkefnisins sem er að virkja alla íbúa byggðarlagsins til að nýta sér möguleika tölvu- og upplýsingatækninnar á sem flestum sviðum hins daglega lífs.
03.03.2004
Tilkynningar

Vel heppnað íbúaþing

Rúmlega tvö hundruð manns tóku þátt í vel heppnuðu íbúaþingi í dag. Þingið var haldið í Borgarhólsskóla við góðar aðstæður. Bæjarstjóri Reinhard Reynisson setti þingið og var að auki þingforseti. Starfsmenn Tækniþings útskýrðu vinnu sína við aðalskipulag bæjarins á greinargóðan hátt í máli og myndum. Umræðuhópar voru að störfum og verður spennandi að sjá hvað kemur útúr þeirri vinnu, en það verða nemendur Framhaldsskólans á Húsavík sem safna saman niðurstöðum frá hópstjórum og skrá þær. Niðurstöður verða svo kynntar á opnum fundi eftir um það bil hálfan mánuð. Hann mun verða auglýstur síðar. Bæjarbúum er þökkuð góð og málefnaleg  þátttaka.
28.02.2004
Tilkynningar

Úthlutun byggðakvóta Húsavíkurbæjar

Bæjarráð hefur úthlutað byggðakvóta sveitarfélagsins í samræmi við reglur og fyrirliggjandi umsóknir. Sjávarútvegsráðuneytið hefur staðfest úthlutunina og mun Fiskistofa færa veiðiheimildir á einstaka báta þegar þeir hafa uppfyllt reglur Húsavíkurbæjar um úthlutun. Úthlutunin hefur verið tilkynnt viðkomandi aðilum með bréfi. Í hlut Húsavíkurbæjar komu 37,3 þígt. (þorskígildistonn) og skiptast þau þannig á milli einstakra báta:
27.02.2004
Tilkynningar

Öskudagurinn

Eins og venja er á Öskudag var mikið um prinsessur og prinsa, bófa og ræningja á ferðinni í bænum. Þetta glæsilega klædda og farðaða fólk hentist á milli verslana og fyrirtækja í bænum og hóf um raust sína og hlaut "mæru" að launum fyrir. Margir lögðu leið sína á bæjarskrifstofuna, starfsfólki til mikillar ánægju.
26.02.2004
Tilkynningar

Samtök um markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar skemmtiferðaskipa

Stofnfundur samatkanna Cruise Iceland var haldinn  á Hótel Sögu fyrir skömmu og sóttu hann rúmlega 70 manns. Á fundinum voru flutt erindi um móttöku skemmtiskipa í hinum ýmsu höfnum landsins og fram kom að sumarið 2004 verður  það stærsta í komum skemmtiskipa til landsins. Húsavíkurhöfn er stofnaðili að samtökunum, enda það eitt af markmiðum markaðssetningaráætlunar hafnarstjórnar að auka komur erlendra skemmtiferðaskipa hingað á næstu árum. Í því sambandi hefur höfnin m.a. unnið í samvinnu við MarkHús og sjö aðrar hafnir í landinu að útgáfu kynningarefnis sem kynnt var útgerðaraðilum skemmtiferðaskipa í Bandaríkjunum s.l. haust.  
25.02.2004
Tilkynningar